151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

svar við fyrirspurn.

[13:56]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill upplýsa í tengslum við umræður um svör eða síðbúin svör að þingfundaskrifstofa fór í sérstakan viðbótareftirrekstur vegna löngu framlagðra fyrirspurna nú á dögunum eftir sérstaka umræðu um það hér í síðustu viku. Það hefur borið nokkurn árangur, reist hefur inn dálítið af svörum, þó ekki við öllum þeim fyrirspurnum sem elstar eru og hyggst forseti eftir atvikum beita sér í því sjálfur á næstunni.

Forseti vill jafnframt upplýsa, sem ættu ekki að vera neinar fréttir fyrir hv. þingmenn, að á síðastliðnum tíu til tólf árum hefur margt verið gert til að styrkja stöðu Alþingis og efla það sem eftirlitsaðila. Eitt af því sem spratt upp úr skoðun þeirra mála eftir hrun, að ég hygg á grundvelli tillagna og ábendingar frá sérstakri nefnd í þinginu, var að hæstv. forsætisráðherra skuli flytja Alþingi árlega skýrslu um afdrif ályktana þingsins, þannig að það er aðhald með því og árlega farið yfir það hvernig framkvæmdarvaldið hefur staðið sig við að virða vilja þingsins í þessum efnum. En það er vissulega rétt að stundum verður dráttur á og þá er um að gera að koma gagnrýni og óánægju á framfæri um það. Til þess hafa þingmenn fjölmörg úrræði.