151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að rifja það upp um hvað við erum að ræða hér. Það var jú lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir vegna skyldu flugrekenda út af Covid-19. Ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta, örlítinn hluta af frumvarpinu til að skýra hvað hér er á ferð. Það bætist sem sagt nýtt ákvæði við lögin til bráðabirgða og það er svohljóðandi:

„Ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðanda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:

a. Skyldu til að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn Covid-19, vottorð um að Covid-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn Covid-19 áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.

b. Skyldu til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið.

c. Skyldu til að flytja farþega til baka til brottfararstaðar geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða staðfestingu skv. a-lið við komu til landsins.“

Þetta voru þessir liðir sem við vorum í verulegum umræðum um í nokkurn tíma. Það fór svo í 2. umr. hér í þingsal að þessu máli og þeim þremur nefndarálitum sem þar voru komin fram, meirihlutanefndarálit og svo nefndarálit 1. og 2. minni hluta, var að minni vísan vísað aftur til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Er skemmst frá því að segja að styrinn stóð um hvort íslenskir ríkisborgarar hefðu fortakslausan rétt eða ekki til að ganga um borð í loftfar. Um þetta ræddu menn hér fram og til baka og um þetta voru þeir lögfræðingar sem við ræddum við ekki á einu máli, þ.e. hvort um væri að ræða brot á 66. gr. stjórnarskrárinnar ef heimkomu væri hamlað, svo að maður orði það þannig,

Nema hvað, nefndin tók við þessu máli á ný og var 2. umr. þá frestað á meðan. Og hér liggur fyrir framhaldsnefndarálit sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Það er þá frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og hljóðar svo:

„Nefndin tók málið til umfjöllunar að nýju og hefur meiri hluti nefndarinnar ákveðið að styðja þær breytingartillögur sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans, sbr. þskj. 1325, og nefndaráliti 1. minni hluta, sbr. þskj. 1341. Um rökstuðning fyrir breytingartillögunum vísast til umfjöllunar um þær í framangreindum skjölum.“ — Og það má líka minna á þær umræður sem fóru fram hér í salnum og eru auðvitað til. Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í framangreindum þingskjölum.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með hefðbundinni heimild í starfsreglum fyrir fastanefndir Alþingis. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti. Undir það skrifa, dagsett 14. maí, hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Herra forseti. Það sem við höfum gert með þessu er að leggja til tvær breytingartillögur sem eru þess efnis að íslenskum ríkisborgurum verður ekki meinuð, í því tilviki að þeir á einhvern máta hafi ekki þá pappíra sem hér um ræðir, innganga í loftfar. Þeir komast þar með hingað til lands og eru þá háðir því hvernig á því verður tekið á landamærum við komuna til Keflavíkurflugvallar, hvort sem það varðar skimanir, sóttkví eða annað sem að því lýtur.

Ég held að ég hafi gert nægilega vel grein fyrir því í hverju þessar breytingar liggja og ég ítreka að þessar tvær breytingartillögur, þ.e. meiri hlutans og 1. minni hluta, stangast ekki á. Niðurstaðan er eingöngu sú að íslenskir ríkisborgarar ganga um borð í loftfar sem þeir eiga rétt á, samkvæmt farmiða, að ganga um borð í ef þeir hafa önnur skilyrði í lagi eins og gengur og gerist.