151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar. Ég ætla að mótmæla því að álit meiri hlutans í þessu máli sé rýrt. Þvert á móti, við gerum grein fyrir því meðalhófi sem þarf að vera og að það sé rökstudd þörf fyrir þetta — svo að það sé nú sagt varðandi það hversu rýrt þetta er. Um að frumvarpið sjálft gildi til loka ársins 2022 þá er það eðlilegt vegna þess að við höfum ekki hugmynd um hvernig Covid-faraldurinn þróast. Það sem er auðvitað lykilatriði í þessu er að reglugerðin, sem þarf að hvíla á lagastoð, lögin sem slík eru bitlaus án reglugerðarinnar, er endurskoðuð á fjögurra vikna fresti. Ef þessara aðgerða er skyndilega ekki þörf þá er ekkert mál að hætta þeim þó að lögin gildi áfram. Ég legg bara áherslu á það að hvorki hv. þingmaður né ég né aðrir hér í salnum hafa græna glóru um það hvernig Covid-faraldurinn mun þróast á næsta einu til tveimur árum þannig að það er ósköp eðlilegt að gildistíminn sé svona.