151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að reglugerðir liggi fyrir áður en þau lög eru samþykkt sem þær eiga að byggja á. Það er nú það fyrsta. Lagaheimildir hér í Covid hafa komið og farið mjög hratt vegna þess einfaldlega að þannig höfum við brugðist við þessum faraldri. Það eru enn þá 140 eða 150 rauð lönd í heiminum þannig að eitthvert bráðaástand — við getum farið í slíkan orðaleik, hvað er bráðaástand? Það er ekki bráðaástand á Íslandi en það er bráðaástand í heiminum. Það er mjög fallvalt ástand í þessum Covid-málum í heiminum. Það er því ekkert rangt við að haga sér með þeim hætti sem við gerum. Ég reikna með að hv. þingmaður ætli að standa með sóttvarnayfirvöldum hér þegar ýtrustu varúðar verður gætt við að opna landið og nú erum við að opna á það í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Þó að þessi lög gildi til loka ársins 2022 er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það. Ég álít að engin þörf sé á því að kalla þetta mál aftur fyrir nefndina heldur þarf að ganga frá því til samþykktar áfram.