151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:20]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram að málið hefur tekið grundvallarbreytingum, liggur mér við að segja, frá því að ég setti mig á mælendaskrá, með því framhaldsnefndaráliti sem hér liggur fyrir þar sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar tekur undir með hv. þingmönnum Hönnu Katrínu Friðriksson og Guðjóni Brjánssyni þegar kemur að því að ekki sé hægt að synja íslenskum ríkisborgurum um flutning heim til Íslands. Ég taldi að ekki væri einu sinni lagaleg óvissa uppi um það að ef hægt væri að meina íslenskum ríkisborgurum að koma til síns heima með þeim hætti sem gert var ráð fyrir væri gengið algerlega í berhögg við 66. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fortakslaust bann er í raun lagt við því að meina íslenskum ríkisborgara að koma til landsins. Það er fortakslaust. Það er því gleðilegt að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar skuli hafa fallið frá þessum áformum.

Það er auðvitað þannig að í nauðsynlegri baráttu við skæða veiru höfum við flest verið fús til að færa fórnir. Við höfum sætt okkur við skert athafnafrelsi og skert lífsgæði í einhvern ákveðinn tíma. Í baráttunni við veiruna, og við verðum að hafa betur þar, eru það sóttvarnasjónarmið sem fyrst og fremst hafa ráðið. Hinir efnahagslegu þættir, og jafnvel mikilvæg borgaraleg réttindi, hafa verið settir í annað og jafnvel þriðja sæti.

Það er hins vegar pólitísk ákvörðun að fylgja ströngum reglum sóttvarna og verja heilbrigði landsmanna. Ábyrgðin hvílir á stjórnmálamönnum en ekki sóttvarnalækni, landlækni, almannavörnum eða heilbrigðiskerfinu. Takmörkun á athafnafrelsi eða borgaralegum réttindum er nefnilega pólitísk. Hún kann að vera byggð á ráðleggingum sóttvarnayfirvalda en hún er fyrst og síðast pólitísk og hún hefur afleiðingar, sumar hverjar ófyrirséðar, ekki síst efnahagslega. Það er einmitt þess vegna sem það skiptir miklu máli, þegar gengið er fram með einhverjum þeim hætti að skerða t.d. ferðafrelsi, ekki bara okkar Íslendinga heldur þeirra sem vilja vera gestir okkar hér, að við gætum meðalhófs.

Ég held því fram, herra forseti, að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar eru í framhaldsnefndaráliti sé ekki gætt að því meðalhófi sem ég tel að nauðsynlegt sé. Þar á ég við þann tíma sem þetta frumvarp, verði það að lögum, á að gilda eða til loka ársins 2022. Ég hygg að við í þessum sal séum stundum of gjörn á að veita framkvæmdarvaldinu heimild til setningar reglugerða án þess að hugsa mjög mikið um það. Á stundum höfum við hreinlega framselt löggjafarvaldið til framkvæmdarvaldsins í formi heimildar til reglugerðarsetninga.

Þegar um er að ræða atriði eins og þetta sem viðkemur ferðafrelsi skiptir máli — telji menn nauðsynlegt að slíkar heimildir séu til staðar eins og hér er lagt til með rökstuðningi um sóttvarnasjónarmið, sem er síðan önnur umræða — að menn taki þá ákvörðun að reglugerðin eða heimildin sé til eins skamms tíma og hægt er. Ég minni á að með stuttum fyrirvara er hægt að kalla Alþingi saman ef á einhverjum tímapunkti er talið að lagaheimildir skorti til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana. Það væri skiljanlegra og hugsanlega væri hægt að styðja málið, eða a.m.k. ekki leggjast gegn því, ef menn væru að horfa fram á að veita heimild til að setja viðkomandi reglugerð og setja kröfur á flugfélög með þeim hætti sem gert er ef horft væri fram á næstu tvo, þrjá mánuði. Jafnvel gæti einhver fellt sig við að það yrði heimilt allt til loka þessa árs. En það er til ársins 2022 og við það get ég ekki fellt mig.

Ég tel nauðsynlegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki þetta mál aftur til sín og ég óska eftir því að málinu verði vísað aftur til nefndar þar sem farið verði sérstaklega yfir það hvaða rök eru fyrir því að veita lagaheimild til reglugerðarsetningar allt til loka árs 2022. Þau rök eru ekki fyrir hendi vegna þess að þingið verður að störfum stærstan hluta þess tíma og ef menn telja að í haust skorti slíka lagaheimild þá geta menn farið og óskað eftir henni hér í þessum sal.

Herra forseti. Ég hef áður vitnað, ekki hér í ræðustóli heldur í grein, í ungt ljóðskáld frá Ástralíu. Hún heitir Erin Hanson. Þetta er ljóð sem sækir oft á mig, lítið og fallegt. Hún orti þetta þegar hún var 18 ára.

Frelsið bíður þín í vindum skýjanna og þú spyrð: En ef ég hrapa? Ó, mín kæra, en ef þú flýgur?

Og ég hygg að við ættum að fara að nálgast málin hér í þingsal og í baráttunni við Covid út frá þessu: Ó, mín kæra, en ef þú flýgur?