151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með frumvarpi þegar stjórnskipunarlög voru hér sett, þ.e. mannréttindaákvæðið, segir, með leyfi forseta:

„Í fyrri málslið 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um fortakslaust bann við því að meina íslenskum ríkisborgara að koma til landsins og bann við brottvísun hans úr landi. Sambærilegar reglur er að finna í 1. mgr. 3. gr. 4. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu og 4. mgr. 12. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, að því frátöldu þó að í síðarnefnda samningnum er ekki kveðið á um að óheimilt sé að vísa eigin þegn úr landi. “

Þetta ákvæði frumvarpsins felur í raun í sér einn helsta kjarna þeirra réttinda sem fylgja því að gerast ríkisborgari ákveðins ríkis. Þótt regla þessa efnis hafi ekki áður verið bundin í íslensku stjórnarskrána má telja vafalaust að hún hafi skipað flokk með óskráðum grundvallarreglum sem íslensk stjórnskipun byggðist á.

Þessi 66. gr., fortakslaust bann við að meina íslenskum ríkisborgurum að snúa aftur heim, var samþykkt hér á þingi með öllum greiddum atkvæðum. Þetta er fortakslaust og við verðum að hafa burði til þess hér í þingsal að standa vörð um þessi grundvallarréttindi. Það er hins vegar alveg örugglega ágreiningur, og ég geri mér grein fyrir því, milli mín og hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar þegar kemur að því sem ég kalla framsal löggjafans til framkvæmdarvaldsins. Hv. þingmaður telur það í lagi þegar ég vil setja því skorður. (Forseti hringir.) Ég vil þá a.m.k. að það séu rök fyrir því af hverju framkvæmdarvaldið fær þær heimildir sem veittar eru.