151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Við hv. þm. Óli Björn Kárason erum auðvitað sammála um að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sé fortakslaust. Ég er bara að benda á að bæði þetta ákvæði og öll önnur fortakslaus réttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru þó ekki undantekningarlaus, eins og ég benti á varðandi það að vísa manni úr landi og afhenda hann erlendum yfirvöldum hafi hann fengið slíkan dóm. Það er löggjafans að dæma þann mann og það er hægt að framselja hann til annars lands.

Ég benti líka á skerðingu á málfrelsi sem gæti verið til umræðu út af ákveðnu máli. Það hefur ekki komið til kasta þingsins að neinu ráði en ég er bara að benda á að til eru dæmi þar sem vafi leikur á þessu fortaksleysi eða hvernig menn túlka það. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði þegar málið var fyrst til umræðu hér. Þeir stjórnspekingar sem við töluðum við og fengum til okkar voru ekki á einu máli, töldu þetta á gráu svæði og voru jafnvel það vissir í sinni sök að þeir gátu ekki fullyrt að það væri brot gegn stjórnarskránni, þetta tiltekna mál okkar. Ég vil bara halda því til haga. Ég er ekki lögfræðingur en ég skrifaði hins vegar undir drengskaparheit um að standa vörð um stjórnarskrána og ég stend auðvitað við það. En að láta eins og það sé ekkert álitamál í þessu, það er auðvitað bara ekki þannig, því miður.

Aðeins varðandi meðalhófið. Ég endurtek það sem ég sagði að ef reglugerðin sem byggir á þessum lögum sem gilda í eitt og hálft ár er endurskoðuð á fjögurra vikna fresti þá sé ég ekki hættuna. (Forseti hringir.) Og ég er sjálfur mótfallinn því að þetta gangi aftur til nefndar.