151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða þingmál sem lagt var fram fyrir mörgum vikum, fyrir tveimur mánuðum minnir mig, við tilteknar aðstæður og tók alveg örugglega mið af þeim aðstæðum sem þá voru uppi eða jafnvel aðstæðum sem voru uppi nokkru áður en frumvarpið var lagt fram. Að því er virðist tekur það minna mið af þeim aðstæðum sem eiga við í dag á Íslandi. Og þó, kannski að einu leyti sem ég ætla að koma að síðar í ræðunni og varðar meginatriði málsins.

Ég fagna því að málið hafi tekið þeim breytingum hjá meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, þegar hlé var gert á 2. umr., að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gerði að sínu nefndarálit minni hluta nefndarinnar sem lýtur að því að frumvarpið nái ekki til íslenskra ríkisborgara. Það þarf ekkert að þræta um það neitt frekar. Þar með erum við sem betur fer, allir þingmenn, sammála um að réttindi Íslendinga hvað varðar ferðir til og frá Íslandi eru önnur og meiri en réttur vegna umferðar annarra ríkisborgara. Það var ánægjuleg breyting og ég ætla ekki að gera það atriði að sérstöku umfjöllunarefni í ræðu minni.

Hins vegar vil ég aðeins varpa ljósi á þær aðstæður sem ég nefndi í upphafi að væru hér uppi og aðstæður til frambúðar hér á Íslandi í tilefni af þessum svokallaða heimsfaraldri. Ég vil þó líka nefna það sem ég hef nefnt í andsvörum við hv. framsögumann málsins að mér þykir frumvarpið sjálft og öll þau nefndarálit sem liggja fyrir í málinu nokkuð rýr í roðinu að því er varðar rökstuðning fyrir málinu og markmið þess auk fleiri atriða. Ég vil sérstaklega nefna að í nefndaráliti er lítið vikið að sjónarmiðum allra þeirra gesta sem voru fengnir á fund nefndarinnar. Hins vegar vekur líka athygli hversu fáir gestir komu á fund nefndarinnar til að ræða þessi mál. Málið varðar auðvitað mjög mikið flugrekendur sem fljúga til og frá Íslandi. Ég sé að hér eru gestir frá Icelandair og í engu vikið að sjónarmiðum þeirra. Ég get svo sem vel ímyndað mér að sjónarmið Icelandair hafi verið þau að þeim væri ljúft og skylt, eða að það væri ekki erfitt fyrir Icelandair, að uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í frumvarpinu sem er að kalla eftir skilríkjum, þessum tilteknu vottorðum eða skjölum, frá farþegum sínum. Icelandair er auðvitað með takmarkaða áfangastaði en það geta verið önnur sjónarmið sem blasa við öðrum flugrekendum, sérstaklega erlendum flugfélögum sem hingað fljúga frá öðrum svæðum en þeim sem við erum í mestum tengslum við. Erfiðara getur verið að kalla eftir slíkum gögnum.

Þetta frumvarp gerir reyndar ráð fyrir því að flugrekendur verði ekki gerðir ábyrgir fyrir því að sannreyna gildi vottorðanna. Auðvitað er mjög mikilvægt að það komi fram að flugrekendur bera ekki ábyrgð á því. En þess er krafist að þeir kalli eftir því að menn framvísi þessum skilríkjum sem þarna er kveðið á um. Þá hlýtur spurningin auðvitað að vera sú hvort það ákvæði þjóni í raun og veru tilgangi sínum, hvort ekki verði ýmiss konar brögð að því að menn framvísi alls konar skjölum sem íslensk stjórnvöld vilji síðan ekki taka gild. Reyndar er ekkert fjallað um hvernig menn ætla að meta þessi skjöl og hvaða skjöl það eru sem eru tekin gild. Mikið hefur verið kallað eftir því hérlendis að það atriði út af fyrir sig sé bara skýrt, alveg óháð þessu máli, en allt er óljóst um það. Þetta er eitt atriði sem ég nefni sem ekki er víst að þjóni tilgangi sínum. Hins vegar er lögð hlutlæg ábyrgð á flugrekendur sem þýðir að sekt getur verið lögð á þá, alveg óháð því hvort sök starfsmanna þeirra sé sönnuð í þessu máli. Ef menn líta bara þannig á og gefa sér að starfsfólkið hafi ekki óskað eftir þessum gögnum án þess að það sé rannsakað sérstaklega eða sannað þá er það hlutlæg ábyrgð flugfélagsins.

Ég vil líka nefna það sem mestu máli skiptir hér. Frumvarpið kveður á um að heimilt sé að kveða á um tímabundna skyldu flugrekenda til að tryggja sóttvarnir í sérstöku hættuástandi. Mér finnst mikilvægt að menn átti sig á því að slík heimild er auðvitað til staðar í sóttvarnalögum með þeirri almennu og afskaplega víðtæku heimild sem sóttvarnalæknir hefur til að grípa til sóttvarnaaðgerða þegar hættuástand skapast. Sóttvarnalækni er þannig, og hefur verið um áratugaskeið, heimilt að grípa til víðtækra valdbeitinga í þeim tilgangi að gæta að sóttvörnum, að því gefnu að meðalhófs sé gætt og að fyrir hendi sé raunveruleg hætta sem steðji að landsmönnum vegna farsótta. Ætlunin var ekki að gera þessar heimildir víðtækari, ekki til handa fleiri embættismönnum eða víðtækari í þeim skilningi að hægt sé að beita slíkum valdheimildum þegar ekki er til staðar brýn hætta.

Ég hefði óskað eftir því að í einhverri greinargerðinni eða nefndarálitinu væri reifað hvernig þessu væri farið í öðrum löndum nú þegar sér fyrir endann á þessum faraldri — þ.e. kannski ekki faraldrinum sjálfum en nú þegar sífellt fleiri þjóðir virðast vera orðnar bólusettar eins og við Íslendingar í ríkum mæli — og hvernig önnur ríki væru að takast á við för manna á milli landa. Mér er ekki kunnugt um að neitt annað ríki hafi gert þá kröfu á flugrekendur að þeir kalli eftir vottorðum um bólusetningu, vottorðum um skimanir eða vottorðum um fyrri veikindi. Ég held að þurft hefði að setja þetta í samhengi við heimsþróunina. Ég tel líka að það sé orðin afar varhugaverð þróun og óæskileg ef á að fara að flokka einstaklinga í heiminum með þessum hætti og fela einkafyrirtækjum að kalla eftir gögnum sem þessum þegar menn ferðast á milli landa, auðvitað að því gefnu að þau lönd sem taka á móti þessu fólki séu í fullum færum til að gera það — sem Ísland er nú þegar orðið sem og önnur ríki.

Nefnt er að komið hafi fram ólík sjónarmið um álitaefni um íslenska ríkisborgara án þess að það hafi verið greint. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki gera það að umræðuefni af því að menn hafa allir fallist á þau sjónarmið að undanþiggja þurfi íslenska ríkisborgara frá gildissviði þessa lagafrumvarps.

Hér vísar meiri hluti nefndarinnar til málefnalegra sjónarmiða og lögmæts tilgangs frumvarpsins. Eingöngu er vísað til þess að við höfum í rúmt ár verið að glíma við kórónuveirufaraldurinn og að margvíslegar skorður hafi verið settar á frelsi fólks til athafna. Þetta virðist mér vera einu rökin sem meiri hlutinn hefur fyrir þessu frumvarpi, þ.e. að vísa til annarra harðra sóttvarnaaðgerða. Hér segir:

Að þessu virtu telur meiri hlutinn engum vafa undirorpið að málefnaleg sjónarmið og lögmætur tilgangur liggi að baki — þ.e. það virðist vísað til þess að svo margar aðrar skorður hafi verið settar á athafnafrelsi manna.

Grundvallarspurningin sem menn þurfa að svara er hins vegar: Er þá enn brýnt að grípa til aðgerða sem þessara? Ég spyr — og hefði viljað fá svar við því í framsögu málsins, að minnsta kosti ekki seinna en í framsögu framsögumanns nefndarálits — hvort menn ætli samhliða þessum aðgerðum að halda uppi jafn íþyngjandi, tafsömum og kostnaðarsömum aðgerðum á landamærum og þeir hafa verið að gera undanfarið ár. Hversu lengi ætla menn að vera með aðgerðir á landamærum er lúta að skimunum þeirra sem hingað koma, er lúta að skyldu þeirra sem hingað koma til dvalar á sóttvarnahótelum og skyldu sem lýtur að sóttkví fyrstu dagana eftir komuna til landsins og þá jafnvel gagnvart íslenskum ríkisborgurum sem koma hingað til landsins? Hversu lengi ætla menn að vera með þær aðgerðir? Þetta er grundvallarspurning og ég verð að segja, virðulegur forseti, að það er í hæsta máta undarlegt að stjórnvöld hafi ekki svarað.

Kannski má draga þá ályktun af frumvarpinu að markmiðið sé einhvern veginn að færa þessar aðgerðir úr landi. Fréttir hafa verið fluttar af því að flugstöðin í Keflavík sé að niðurlotum komin vegna sóttvarnaaðgerða sem þar eiga sér stað, sem eru þessar skimanir. Fréttir hafa líka verið fluttar af því að menn nái varla að finna ný sóttvarnahótel nógu hratt til að finna stað öllu því fólki frá öllum þeim 160 löndum sem nú eru á lista yfir svokölluð hááhættusvæði. Ég man ekki hvað ríki heimsins eru mörg, kannski rúmlega 200 en af þeim eru 160 ríki skilgreind sem hááhættusvæði á einhverjum listum í dómsmálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Hversu lengi ætla menn að streða við þetta nú þegar þjóðin hefur öll verið bólusett að miklu leyti? Allir viðkvæmustu hóparnir hafa verið bólusettir og það skiptir mestu máli að viðkvæmir hópar hafa verið bólusettir og menn eru betur í stakk búnir til að takast á við þennan faraldur. Að mínu mati, virðulegur forseti, og eftir því sem ég skil helstu sérfræðinga í þessu í heiminum, er þessi faraldur, þessi veira, ekki að hverfa okkur á næstunni. Þá hlýtur að skipta mestu máli að menn séu í stakk búnir til að takast á við hana en gera það þó þannig að líf manna fari ekki úr skorðum, ekki frekar en í glímu okkar við aðra sjúkdóma sem heilbrigðiskerfið og þjóðfélög þurfa að glíma við alla daga ársins, allan sólarhringinn, úti um allan heim. Það er því grundvallarspurning hversu lengi menn ætla að vera með þessar aðgerðir.

Ég hef hent þau ummæli á lofti að menn séu einhvern veginn að reyna að koma sér út úr þessum aðgerðum með því að færa þetta til útlanda, færa þetta á ytri landamæri og leggja það í hendur flugrekenda að kalla eftir þessum gögnum en ekkert mat hefur farið fram á því hvort það muni skila einhverjum árangri eða hvort það er allt saman einhvers konar sýndarmennska sem ég óttast að þetta frumvarp sé. Kannski er það leið út úr því ástandi sem ég hef verið að lýsa á Leifsstöð og sóttvarnahótelunum vegna þess að einhvern veginn þurfa menn að komast út úr því. Menn þurfa að komast út úr þessum skimunum, þessari skyldu til dvalar á sóttvarnahótelum. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að halda uppi sóttvarnaaðgerðum með þessum hætti. Það er reyndar önnur umræða sem ég mun kalla eftir, þ.e. að menn leggi niður og upplýsi um kostnaðinn af öllu þessu. Væri öllu því fé sem veitt hefur verið í þetta ekki betur varið í að efla heilbrigðiskerfið, auka getu spítalans til að taka á móti einni og einni, jafnvel þótt það væru fimm eða tíu, lítilli bylgju af þessum faraldri? Væri þessu fé ekki betur varið í uppbyggingu innviða á því sviði frekar en að reyna, eins og manni hefur kannski virst vera núna í einhverri sýndarmennsku, að skima fólk sem kemur hingað einkennalaust, skima út um allar trissur einkennalaust fólk, láta einkennalaust fólk dvelja á kostnað ríkisins á sóttvarnahóteli og samkvæmt nýjustu fréttum jafnvel konur langt gengnar með börn. Þetta finnst mér kalla á umræðu.

Gott og vel, ef menn ætla samhliða frumvarpi um skyldu flugrekenda til að kalla eftir tilteknum vottorðum að láta af kostnaðarsömum sóttvarnaaðgerðum innan lands þá segi ég: Guð láti gott á vita. Ég myndi fagna því. Þótt mér sé meinilla við málið sjálft að meginstefnu til og efni kalla ég líka eftir því að menn upplýsi um það hversu lengi þeir ætli að standa í þessu. Vandinn við málið er að um þetta hefur ekkert verið upplýst. Það hefur ekkert verið upplýst um það hversu lengi menn ætla að halda áfram skimunum á landamærum. Ég heyri að ferðaþjónustan er að benda á að menn ættu að taka upp — og ég hef reyndar bent á það fyrir löngu — skilvirkari próf en þessi svokölluðu PCR-próf, minna aggresíf, minna ífarandi, ef maður getur kallað það svo, hraðpróf og annað í þessum tilgangi. Það breytir því ekki að meginspurningin er — og henni verður að svara: Hvenær ætla menn að þora að draga úr þessum aðgerðum og draga úr kostnaði þannig að menn geti farið að einbeita sér að uppbyggingu innviða hér á landi og sérstaklega heilbrigðiskerfisins sem blæðir út á meðan á allri þessari sýndarmennsku stendur? Ég leyfi mér að kalla það sýndarmennsku vegna þess að verið er að fara í þessar hörðu aðgerðir núna loksins þegar allt okkar viðkvæma fólk er bólusett. Það var ekki farið í þær síðasta haust heldur núna þegar flestir eru bólusettir.

Ég vil árétta það í lokin að ég tel íslenska ríkinu fullkomlega heimilt að setja þær reglur sem það vill á landamærum og stemma stigu við komu fólks yfir landamæri með þeim hætti sem íslensk stjórnvöld telja að henti best hagsmunum Íslendinga. Á það er ég ekki að deila með þessu frumvarpi og hef reyndar bent á að menn ættu kannski að herða landamæraeftirlitið af mörgum öðrum ástæðum en akkúrat þessum. En ég geld varhuga við því ef menn ætla að nota svona mál til þess mögulega að grípa einhvern annars konar vanda en af völdum kórónuveirufaraldursins, grípa annars konar ferðamenn eða ferðir manna yfir landamæri en kórónuveirufaraldurinn kallar á. Það er hættan með svona mál, sem er þess utan með þessum langa gildistíma, að menn fari jafnvel að misnota heimildirnar í allt öðrum tilgangi og kannski er ógagnsætt hinum almenna manni hver hin raunverulega ástæða er með málinu.

Þetta er nú það sem ég hef verið að leggja áherslu á. Ég vil bara nefna að ég tek undir ósk hv. þm. Óla Björns Kárasonar um að málið fari aftur til nefndar milli 2.og 3. umr. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd þá til þess að endurskoða og leggja fram tillögu til breytingar á gildistíma frumvarpsins þannig að hér sé ekki verið að veita víðtæka heimild til reglugerða sem leggja skyldur á flugrekendur út árið 2022 þegar allar aðrar lagaheimildir sem við höfum verið að setja hér og veita vegna kórónuveirufaraldursins eru til mun skemmri tíma. Nýlegar lagabreytingar gilda bara til loka júní.