151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir greinargerð hans en verð að viðurkenna að mér þykir hún nokkuð rýr í einstökum atriðum og þá sérstaklega varðandi skipan matsnefndar. Þannig stendur á að ekki er gerð grein fyrir því hvert sé tilefni eða tilgangurinn með þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi skipan matsnefndar. Eins og menn þekkja er matsnefnd afar mikilvæg stofnun í þeirri þýðingarmiklu atvinnugrein sem lýtur að lax- og silungsveiði og þar er fjallað um gífurlega mikla hagsmuni. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að í matsnefnd sitji þrír fulltrúar, þar af hafi tveir hæfisskilyrði héraðsdómara. Er annar þeirra skipaður af ráðherra án tilnefningar en hinn er tilnefndur af Hæstarétti. Sú breyting sem hér er lögð til er mjög veruleg í tvíþættu tilliti. Annars vegar er fallið frá öllum hæfisskilyrðum í lögunum. Auðvitað getur hv. þingmaður og meiri hlutinn sagt að það sé ekkert sem banni það eða að alla vega sá sem er skipaður af ráðherra gæti fullnægt hæfisskilyrðum héraðsdómara en það er ekki tekið fram í lögunum. Síðan er á það að líta að margoft hefur verið á það bent af hálfu Landssambands veiðifélaga, og ég mun gera grein fyrir því hér í ræðu og fara yfir það, að mjög mikil hætta er á því (Forseti hringir.) að það standi þannig á að sá sem er bent á af hálfu Hafrannsóknastofnunar (Forseti hringir.) verði vanhæfur vegna aðkomu Hafrannsóknastofnunar að málinu á fyrri stigum. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Af hverju er verið að leggja þetta til með þessum hætti?