151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil líka taka málið aftur inn til nefndar til að fá þetta á hreint með ríkisstyrkjareglurnar. Eins og kom fram í máli mínu áðan virðist staðan vera þannig að þessi 80.000 sem eiga eftir að taka við ferðagjöf — það hefur gengið mjög hægt á milljónirnar síðustu mánuði þannig að kannski er orðið ólíklegt að þessir aðilar dragi til sín 5.000 kr. í gegnum Stafrænt Ísland. Þegar við förum með fjárauka og fjárheimildir ríkisins er eðlilegt að miðað sé við að allir geti nýtt sér viðkomandi úrræði. Það er náttúrlega verið að stýra þessu með þeim hætti að reyna að koma því í not til að styrkja ferðaþjónustuna.

Eins og komið hefur fram eru mögulega, eins og málið stendur núna, 650 milljónir vannýttar af 1.500 milljónum sem voru samþykktar í þetta verkefni í fjárauka eitt í fyrra og í fjárlögum. Með því að koma þessu inn í ferðagjöf tvö er líklegra að sá hópur sem hefur nú þegar nýtt sér ferðagjöf sína muni nýta ferðagjöf tvö. Það er ólíklegt að þessi 80.000 manns, eða 75.000 eða hvað það er núna, sem hafa ekki sótt sína gjöf muni nýta sér hana. Ég held að það sé eðlilegri hugsun.

Við skulum fara aðeins í gegnum þetta í nefndinni. Það sem ég er fyrst og fremst að kalla eftir núna, með því að fá þetta inn í nefndina á nýjan leik, er þetta með ríkisstyrkjareglur ESA, hvaða heimildir eru gagnvart 30. september eða út árið og allt í þessu máli sem snýr að heildarpakkanum varðandi þær reglur.