151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ferðagjöf.

776. mál
[16:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi bara aðeins koma hingað upp og þakka hv. þingmanni fyrir. Í ljósi þess að taka á málið inn aftur af því að upplýsingar eru komnar held ég að það ætti að vera hægt að afgreiða það snöfurmannlega úr nefndinni aftur og inn í þing. Ég er sammála því að það er alltaf ákveðinn undirbúningur þrátt fyrir að núna sé til undirstaða sem var ekki til í fyrra. Ég lít svo á að við höfum ekki upplýsingar um hvers vegna ekki hafi verið meira nýtt, eins og ég rakti áðan, og það geta verið margar ástæður fyrir því. Að þessu loknu held ég að —kannski á þetta eftir að verða árlegur viðburður næstu árin, ég veit það ekki, ég er ekki endilega sannfærð um það — þetta verði einn partur af mörgum af viðspyrnunni, eins og hv. þingmaður rakti í framsögu sinni, til að styðja við ferðaþjónustuna. Ég held að þetta mál, þ.e. að koma ferðagjöfinni út á sem skemmstum tíma, eigi að vera útgangspunkturinn. Mér finnst ekki ástæða til að lengja neitt sérstaklega í því. Eins og hér var líka sagt er kominn allur þessi tími og þrátt fyrir það er nýtingin ekki meiri sem segir okkur kannski einhverja sögu, þó ekki alla. Þess vegna vona ég að strax verði hafist handa við að reyna að ná utan um það hverjir það eru sem ekki hafa nýtt sér þetta. Ég veit ekki hvort það er hægt, hvort það þarf að gera einhverja könnun eða hvort hægt er að fylgja því eitthvað eftir. Persónuvernd er jú rík og erfitt að eiga við það. Það væri áhugavert ef það væru einhverjir hópar sem væri hægt að sjá að hefðu beinlínis ekki nýtt sér þetta umfram aðra. Alla vega er þetta bara gott mál. Ég vona að við komum því sem allra fyrst út.