151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ný spá hagfræðideildar Landsbankans er sláandi. Hækkun fasteignaverðs um 10,5% á milli ársmeðaltala er mesta hækkun frá árinu 2007. Jafnframt er því spáð að í lok spátímans verði stýrivextir komnir upp í 2,75%. Við þekkjum ástæðu hækkandi fasteignaverðs; ónóg uppbygging, vaxtalækkun og aukin eftirspurn nýrra kaupenda. Framboðsskorturinn er alltaf jafn undarlegur í ljósi þess að við vitum af komu nýrra, stórra kynslóða á fasteignamarkað með áratugafyrirvara. Nú er hættan sú að kaupendur neyðist til að spenna bogann allt of hátt til að komast inn á markaðinn. Vaxtahækkun að viðbættri hækkun fasteignaverðs þýðir að fyrir 40 millj. kr. fasteign þarf að leggja út 800.000 kr. til viðbótar við það sem nú er og lánin af henni munu á tímabilinu verða 1,2 millj. kr. hærri. Aukinn kostnaður þeirra sem koma ný inn á markaðinn er upp á 2 millj. kr. á einungis tveimur árum.

Ég hef nefnt það áður í ræðustól að fasteignakaup á Íslandi í krónuhagkerfi okkar bera með sér öll merki áhættufjárfestingar og ég held að fréttir dagsins undirstriki það. Við verðum að búa til betra umhverfi til framtíðar. Við verðum að tryggja næga uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði sem uppfyllir þarfir samfélagsins. Við verðum að bjóða fólki á fasteignamarkaði og leigumarkaði fyrirsjáanleika þannig að það geti tekið ákvarðanir sem henta aðstæðum þess og þurfi ekki að kvíða vaxtasveiflum og ákvörðunum stjórnvalda.