151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. The Washington Post birti í gær fréttir þess efnis að forseti Bandaríkjanna hefði nýlega samþykkt vopnasölu til Ísraels að upphæð 93 milljörðum íslenskra króna. Greint var frá þessu á Bandaríkjaþingi 5. maí síðastliðinn, um viku áður en átök brutust út milli Ísraelsmanna og Hamas-liða í Palestínu, 93 milljörðum sullað á ófriðarbálið. Ímyndum okkur nú að eitt öflugasta ríki á jörðinni hefði varið þessari upphæð til að vekja von, stuðla að friði og sætta ólík sjónarmið. Deilur fyrir botni Miðjarðarhafs eiga sér langa og blóðuga sögu. Það er varasamt í umræðunni að draga upp einfalda mynd af svo flóknu máli. Átök Ísraels og Palestínu eru þjóðernisdeila sem snýst um land. Viðfangsefnið er hvernig Ísraelar og Palestínumenn geta búa saman í sátt og samlyndi þannig að friður ríki, jafnræði sé meðal íbúa og réttlæti. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hefur ástandið verið á suðupunkti. Nú flæðir upp úr og saklausir borgarar, konur og börn, falla. Við fordæmum slíkt en verðum að leita leiða til að lækka hitastigið, ekki bara undrast og fordæma þegar átök brjótast út. Að óbreyttu munu átök og kúgun áfram blossa upp með reglulegum hætti, hernám Ísraela halda áfram og von Palestínumanna dvína.

Í friði finnst vonin. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar í dag vegna ástandsins. Forseti Bandaríkjanna hefur hvatt til vopnahlés, en fulltrúi Bandaríkjanna í ráðinu hefur engu að síður þrívegis beitt neitunarvaldi til að stöðva sameiginlega ályktun ráðsins þar sem ofbeldið er fordæmt og hvatt er til vopnahlés. Það er sama hversu smá við erum, við verðum að bregðast við og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Þessar deilur snúast ekki bara um Ísrael og Palestínu. Vísum gagnrýninni þangað sem hún á heima.