151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:12]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að taka undir ræður síðustu tveggja hv. þingmanna. En ég ætla að tala um vinnumarkaðinn. Vinnumarkaðurinn er að breytast og fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína. Covid hefur gefið nýju byltingunni vængi og á aðeins hálfu ári hefur margt breyst sem annars hefði tekið nokkur ár. Sveigjanlegur vinnutími og störf án staðsetningar hafa hlotið viðurkenningu. Hugmyndir okkar um fjögurra veggja starfsstöðvar hafa breyst. Það er mikilvægt að við höldum áfram og undirbúum okkur fyrir áframhaldandi breytingar í þessa átt. Við vitum ekki hvert framtíðin leiðir okkur í þessum málum. Sú hefðbundna leið að mennta sig til ákveðinna starfa, vera kominn í öruggt starf 25 ára og fá afhent gullúrið 67 ára fyrir vel unnin störf, er ekki lengur sú mynd sem við getum kynnt fyrir börnum okkar. Þau vita betur. Þau eru með þetta. Gigg-hagkerfið hefur hafið innreið sína. Við þurfum að vera tilbúin að mennta okkur og endurmeta alla starfsævina og efla þannig færni okkar til að vera með í síbreytilegum heimi. Samvinnurými víða um landið hafa sprottið upp á undanförnum mánuðum. Þau bjóða upp á mismunandi aðild starfsmanna sem henta hverjum og einum. Í samvinnurýmum næst að leiða saman þekkingu og byggja undir félagslegar þarfir fólks sem vinnur við sín verkefni auk þess sem þau stuðla að jákvæðri samfélagsþróun. Slíkur vinnustaður getur rúmað mismunandi verkefni sem unnin eru vítt og breitt um heiminn. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingu um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrir fram ákveðinna veggja.

Virðulegi forseti. Mig langar í lokin að vekja athygli á vefnámskeiði sem stjórnvöld í samstarfi við háskólana í Reykjavík hafa opnað um gervigreind. Námskeiðið er opið öllum almenningi og kallast „Elemennt“ og má finna inni á Ísland.is. Markmiðið með námskeiðinu er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni ásamt því að styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga, eins og stendur í kynningunni.