151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nú er staddur á landinu nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken. Hann átti fund með íslenska starfsbróður sínum í morgun. Þar gaf hann m.a. út skýr skilaboð um að Bandaríkjastjórn aðhylltist tveggja ríkja lausn í Palestínu, sem eru mjög skýr og athyglisverð skilaboð. Ég verð hins vegar að viðurkenna, herra forseti, að ég er mjög forvitinn að heyra af þessum fundi ráðherranna tveggja. Ég vona að utanríkisráðherra Íslands hafi fengið góðan tíma til þess að útskýra fyrir hinum bandaríska starfsbróður sínum stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum, vegna þess að hún er alls ekki skýr. Eftir þau fjögur ár sem þessir flokkar eru búnir að annast utanríkismálin er það alls ekki skýrt hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í öryggis- og varnarmálum.

Kona nokkur fyrir norðan sagði einhvern tímann, með leyfi forseta, að hún hefði viljað vera dauð fluga á vegg þegar eitthvað gerðist. Ég tek undir það, ég hefði viljað vera dauð fluga á vegg í morgun þegar utanríkisráðherra Íslands útskýrði fyrir hinum bandaríska starfsbróður sínum ástæður þess að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki tekið á móti framlögum úr Mannvirkjasjóði NATO til að gera nauðsynlegar endurbætur við Keflavíkurflugvöll, þ.e. bæði við höfnina og við völlinn sjálfan. Ég hefði gefið mikið fyrir það og mun spyrja utanríkisráðherra að því þegar hann mætir til þings hvaða útskýringar og e.t.v. afsakanir hann hafði uppi við bandarískan starfsbróður sinn um þá staðreynd að Íslendingar hafa neitað upphæðum sem eru á bilinu 14–50 milljarðar, það fer eftir því hvaða áfanga maður tekur, til að standa fyrir nauðsynlegri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og þar í kring, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hunsað síðustu fjögur ár.