151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í dag er alþjóðlegur safnadagur. Söfn um allan heim fagna þessum degi og það er markmið að efla samstarf meðal safna víðs vegar um heiminn. Á Íslandi eru þrjú höfuðsöfn, auk fjölda safna um land allt og menningartengdra aðila. Ég var viðstödd opnun nýrrar grunnsýningar á Byggðasafninu á Görðum á Akranesi í síðustu viku. Sýningin hefur verið í undirbúningi í fjögur ár og er mjög vel heppnuð með hljóðleiðsögn á íslensku og ensku um safnið. Þema hinnar nýju sýningar er lífið til sjós og lands í vinnu og leik. Á sýningunni er einnig hægt að skoða uppgerð íbúðarhús og sjá eldsmið að störfum o.fl. Þessi sýning er virkilega þess virði að heimsækja og skoða með fjölskyldunni.

Við eigum ótrúlegan menningarauð í söfnum vítt og breitt um landið. Ef ég nefni nokkur skemmtileg og fróðleg söfn í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, má nefna Vatnasafnið í Stykkishólmi, Landbúnaðarsafn Íslands, Byggðasafn Dalamanna, Skrímslasetrið á Bíldudal, Hlunnindasýningu á Reykhólum, Sjóminjasafnið Ósvör í Bolungarvík, Melrakkasetur Íslands í Súðavík, Byggðasafn Vestfjarða, Galdrasýningu á Ströndum, Melódíu minninganna á Bíldudal, Selasetrið á Hvammstanga, Spákonuhofið á Skagaströnd, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, Byggðasafn Skagfirðinga og Vesturfarasetrið á Hofsósi. Það er fjöldinn allur af söfnum og langt frá því að allt sé talið upp. Söfn úti um allt land eru ótrúlega auðug af menningu og fjölbreytileika og ég held að sumrinu væri vel varið í það hjá fólki að heimsækja þessi söfn á ferð sinni um Ísland. Það er líka tilvalið að nýta ferðagjöfina til að heimsækja þessi frábæru söfn sem við eigum, Íslendingar.