151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég nú nefna það hér að mér þótti hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fara heldur frjálslega með staðreyndir og skreyta sig með stolnum fjöðrum, sérstaklega þegar rætt var um hálendisþjóðgarð af hans hálfu.

Ég vil nefna hér málefni áfengissölu sem hafa verið til umræðu síðustu daga. ÁTVR vaknar allt í einu upp við það að netsala á áfengi hljóti að teljast ólögleg. Hún hefur þó verið stunduð hér á landi í mörg ár. Öllum er heimilt að kaupa vín af erlendum aðilum á netinu og flytja inn til eigin nota. Heilu síðurnar á samfélagsmiðlum eru starfræktar í þessari starfsemi með góðum árangri að því er virðist. Það er ekki óeðlilegt að forsvarsmenn ÁTVR klóri sér í hausnum yfir þessari stöðu og eðlilegast væri að þeir kölluðu eftir skýrari leikreglum í stað þess að fara í lögbann á starfsemi sem er búin að vera hér til staðar í landinu í mörg ár og reyndar um alla Evrópu.

Alþingi hefur allt of lengi dregið lappirnar í því að bregðast við breyttu umhverfi. Ítrekað hafa verið lögð fram þingmál um aukið frelsi í þessum viðskiptum en þau hafa aldrei komist til afgreiðslu í þinginu. Það er tímabært að við klárum þetta mál hér á Alþingi. Um þessi mál eru eðlilega skiptar skoðanir eins og gjarnan er um mál sem hér eru til afgreiðslu, en menn verða að fara að horfast í augu við þær samfélagsbreytingar sem hafa orðið og þróa lagaumhverfið að þeim aðstæðum. Það á við hvort sem um er að ræða frekari takmarkanir á núverandi stöðu eða aukið frelsi og frekari opnun á þessum viðskiptum. Hagsmunir neytenda, virðulegur forseti, eru klárlega undir og það vekur auðvitað mikla athygli þegar lítil vefsíðuverslun, sem er eingöngu með starfsemi á netinu, takmörkuð innkaup eðlilega, getur verið að bjóða meira en 20% lægra verð en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um hagsmuni neytenda þegar kemur að þessum málum.