151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[13:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er ágætisumræða hér þó að mér hafi þótt málshefjandi vera með ögn sérstaka útgangspunkta, talaði um rétttrúnaðarnámskeið, kerfið misnotað og þess háttar í staðinn fyrir að tala um þann vanda sem við erum að glíma við, sem er skipulögð glæpastarfsemi sem er unnin þvert á landamæri, óháð uppruna, óháð rétttrúnaði eða kerfum, er stunduð um allan heim. Þannig er það nú.

Það sem mig langar að ræða hér fyrst og fremst er sá aðbúnaður sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dómsmálaráðherra býr eftirlitsstofnunum, lögreglu, skattrannsóknarstjóra o.fl., af því það kom fram í mögnuðum þáttum um daginn, Kompásþáttum, að þeir sem gerst þekkja til í þessum málaflokkum og starfa á þessum vettvangi segja að fjármagn, mannafli, aðbúnaður, sem ríkisstjórn Íslands færi lögreglu og öðrum eftirlitsstofnunum, sé í skötulíki, því miður. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði að lögreglu skorti hvort tveggja mannafla og tíma til að geta sinnt verkefnum sem lúta að skipulagðri glæpastarfsemi. Theodóra Emilsdóttir, settur skattrannsóknarstjóri, sagði í sama þætti að skipulagðir glæpir væru að gerast fyrir framan augun á okkur en embættin hafi án árangurs kallað eftir úrræðum til að geta brugðist hraðar við gruni um að verið sé að misnota skattkerfið. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að skipulögð brotastarfsemi sé líklega einhver mesta ógn sem samfélagið glími við í dag. Hvernig er því svarað? Nú erum við að fást við verkefnið um styttingu vinnuvikunnar og bara hún ein og sér kallar á 75 nýja lögreglumenn á Íslandi. Við erum enn þá á þeim stað að það eru jafn margir lögreglumenn á Íslandi í dag og 2007, það eru nú öll ósköpin. (Forseti hringir.)

Til þess að geta unnið hratt og örugglega, rannsakað þessi mál og varið borgara hér á landi þarf að fjölga lögreglumönnum. Þetta er ekkert flókið. Það er þar sem vanrækslan hefur átt sér stað.