151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[13:55]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri, þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að hefja máls á þessu, enda mikilvægt og aðkallandi verkefni að koma böndum á skipulagða glæpastarfsemi. Orðaval hv. þingmanns, framsögumanns, og e.t.v. nálgun, þótti mér þó eilítið sérkennilegt, en engu að síður er það mikilvægt efni sem við ræðum hér í dag, og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóðar upplýsingar. Það var gott að heyra hversu mikið hefur verið gert nú þegar í þessum efnum og hvernig hæstv. ráðherra sér þessi verkefni fyrir sér til lengri tíma, vegna þess að umfangið fer vaxandi. Ég ætla ekki að telja upp tölur og tegundir glæpa, en tegundaflóran er stór og umfangið allt of mikið: 15 skilgreindir skipulagðir glæpahópar, það eru skuggalegar tölur. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þegar hún rifjaði upp æskuárin á Tröllaskaga, að sú var tíðin að maður gat skilið eftir ólæst og sá helst einhverja glæpona í bíómyndum. Þetta hefur breyst, en ég hef fulla trú á hæstv. ráðherra, ég held að við séum á réttri leið. Við þurfum að sjálfsögðu að tengja saman ólíkar stofnanir og efla löggæsluna. Samvinna er alltaf af hinu góða, að deila upplýsingum og hjálpast að við að koma böndum á þessa glæpi. Ég ætla að tala hér um netglæpina á eftir (Forseti hringir.) og forvirkar rannsóknarheimildir, en það er af mörgu að taka í þessari umræðu.