151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða og löngu tímabær. Skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í aukana á Íslandi síðustu ár. Þetta eru ekkert nýjar fréttir. Greiningardeild ríkislögreglunnar mat það svo árið 2019 að að náttúruhamförum frátöldum væri skipulögð glæpastarfsemi alvarlegasta ógnin við samfélagið og einstaklinga á Íslandi. Í þeirri skýrslu voru endurtekin varnaðarorð frá fyrri skýrslu frá 2017:

„Að öllu þessu virtu verður sú ályktun dregin að núverandi aðstæður séu, að öllu óbreyttu, ekki til þess fallnar að hamla gegn skipulagðri starfsemi í landinu. Að framangreindu má ljóst vera að dregið hafi úr getu lögreglu til að sinna mörgum þeirra málaflokka sem falla undir hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi“.“

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð gerði ríkisstjórnin lítið til að efla lögreglu í baráttu sinni. Flokkur fólksins taldi stöðuna alvarlega og lagði til auknar fjárveitingar til lögreglu við afgreiðslu fjárlaga haustið 2019, einmitt til þess að gera átak í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Ríkisstjórnin greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu. Í frétt í Vísi um morðið í Rauðagerði segir, með leyfi forseta, að um þremur vikum fyrir morðið hafi lögreglan fengið upplýsingar um mann vopnaðan skammbyssu:

„Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að brugðist hafi verið við um leið og að leit að byssunni hafi strax hafist. Leitin hafi hins vegar ekki borið árangur. […] Aðspurður segir Margeir að lögreglan hafi að sjálfsögðu viljað vakta ferðir einstaklings sem grunaður er um að bera skammbyssu með hljóðdeyfi, en hvorki mannafli né tími geri lögreglu slíkt kleift.“

Þetta er vægast sagt sláandi. Hvað er að í okkar samfélagi ef við getum ekki einu sinni séð til þess, þegar vitað er um mann á ferð með skammbyssu með hljóðdeyfi, að hægt sé að stöðva hann? Það segir okkur að það vantar fleiri lögreglumenn. Ég sá í nýlegri skýrslu að til þess að ná viðunandi fjölda lögreglumanna á Íslandi þyrfti sennilega að bæta við 180 lögreglumönnum hér á landi. Ég kem áfram að því í seinni ræðu minni.