151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:02]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Maður er skotinn fyrir utan heimili sitt, níu skotum. Heyrst hefur að þetta hafi líkst aftöku. Er þetta saga úr einni af milljónaborgum Norður-Ameríku? Nei, þetta gerðist hér í Reykjavík fyrir nokkrum vikum og var einhvers konar uppgjör glæpahópa. Hér er um einstæðan atburð í samfélagi okkar að ræða, í landi sem talið hefur verið eitt það öruggasta að búa í. Þjóðin vaknaði upp við nýjan veruleika. En átti þetta að koma svo mjög á óvart? Nei. Margoft var búið að vara við þessu. Í skýrslu eftir skýrslu hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra bent á hættuna og lagt til leiðir til að spyrna við fótum. Skaðlegum afleiðingum þessarar starfsemi er vel og nákvæmlega lýst í skýrslum greiningardeildarinnar. Geta íslensku lögreglunnar er talin veik þegar kemur að þessari ógn. Fram kom í nýrri og fróðlegri þáttaröð, Kompás á Stöð 2, að aukin harka, þaulskipulögð tryggingasvik og tugmilljarða fíkniefnaviðskipti einkenni nú undirheima Íslands.

En eru stjórnvöld að hlusta? Og hvað hefur verið gert í öll þessi ár? Svarið er: Nánast ekkert. Yfirvöld hafa skellt við skollaeyrum, glæpagengjunum hefur einungis vaxið ásmegin allar götur frá því að fyrst var varað við uppgangi þeirra. Það er ekki nægilegt eða fullnægjandi að hæstv. ráðherra segist ætla að fjölga námskeiðum eða efla fræðslu lögreglumanna. Miklu meira þarf að koma til. Hæstv. ráðherra þarf að vera algjörlega afdráttarlaus í lok þessarar umræðu um til hvaða aðgerða hún hyggst grípa. Skýrslur greiningardeildarinnar liggja fyrir. Ábendingar deildarinnar er þar að finna. Rauðagerðismálið blasir við. Færa verður lögreglunni fleiri vopn í hendur, vopn sem duga til að kveða niður þá óáran sem (Forseti hringir.) skipulagðir glæpahópar eru, fyrir fullt og fast. Ráðherra þarf að fullvissa okkur um að þeirri ógn sem skipulagðir glæpahópar eru verði afstýrt með öllum ráðum. Öllum ráðum.