151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn held ég að við verðum öll að horfast í augu við að skipulögð glæpastarfsemi er vaxandi vandamál hérna og það þarf að grípa til aðgerða til að bregðast við henni. Það liggur hins vegar fyrir, eins og kom m.a. fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra, að mjög mörg skref hafa verið stigin á undanförnum árum til að bregðast við ábendingum um nauðsyn aðgerða til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi. Hér hafa verið nefndar lagabreytingar sem skipt hafa máli í því sambandi og munu skipta máli, og eins hefur auknum fjármunum verið varið til rannsókna á þessu sviði. Þetta eru raunverulegir hlutir, raunverulegar aðgerðir sem skipta máli í þessu sambandi. Ég held að hv. þingmenn verði að skoða þessi mál í samhengi við það sem gert hefur verið á undanförnum árum, í tíð núverandi hæstv. dómsmálaráðherra og forvera hennar, þar sem raunverulega hafa verið tekin afgerandi og ákveðin skref í þá átt að reyna að bregðast við þessum vanda sem við erum sammála um að bregðast þurfi við.

Þetta held ég að sé mikilvægt í þessu. Maður getur sagt sem svo að sumar fullyrðingar sem flogið hafa í umræðunni í dag eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. En við hljótum hins vegar að taka það jákvæða út úr þessari umræðu og segja að það sé þá alla vega fullur vilji í þinginu til að stíga raunveruleg skref til þess að ná árangri í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi. Það mun t.d. reyna á það þegar við förum í umræður hér í þinginu, annaðhvort nú á vordögum eða síðar, um það hvernig hægt er að efla rannsóknarheimildir lögreglu, sem er sennilega það mikilvægasta í þessu sambandi. Við höfum stigið mjög (Forseti hringir.) mikilvæg skref í að efla upplýsingaöflun lögreglu og samstarf á því sviði, en við þurfum að stíga frekari skref í þeim efnum og það eru svoleiðis aðgerðir, auk þess að efla hina almennu löggæslu, sem skila árangri í þessu starfi.