151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:07]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með öðrum þingmönnum að full ástæða er til að efla löggæsluna í landinu til að takast á við starfsemi glæpahópa og skipulagða glæpastarfsemi sem kemur fram með ýmsu móti, í ofbeldisverkum af ýmsu tagi, mansali, fíkniefnaviðskiptum og skattsvikum. En þess er skemmst að minnast að ríkisstjórnin lagði niður embætti skattrannsóknarstjóra sem hefur einn sinnt því verkefni hér, fyrir utan blaða- og fréttamenn, að rekja upp aflandsflækjur íslenskra auðmanna. Það er sjálfsagt að efla eftirlit á landamærum með því að hingað komi ekki fagmenn í ofbeldi gagngert til að sinna þeirri vinnu sinni á vegum innlendra aðila. En mér segir svo hugur að þar sé ekki endilega að finna stærstu áskorunina sem blasir við okkur á þessu sviði, heldur sé það hitt að ungt fólk hér á landi, og þá alveg sérstaklega ungir karlmenn, sjái ekki leið afbrota og gengjamennsku sem meira aðlaðandi en hitt að gerast nýtir borgarar. Þar gegnir skólakerfið mikilsverðu hlutverki, bæði til að hjálpa öllum til að þroska hæfileika sína og mennta sig til þess sem hugurinn stendur til, en líka til að ná tökum á grundvallaratriðum þess að vera virkur og góður þátttakandi í samfélaginu. Þar er tungumálið stærri þáttur en við gerum okkur grein fyrir. Samfélag sem útilokar fólk á grundvelli uppruna, tungumáls, útlits eða trúar býður hættunni heim á því að undirheimar myndist þangað sem hægt er að sækja sjálfsvirðingu og viðurkenningu sem manni er neitað um í sjálfu samfélaginu. Hæstv. forseti, þarna tel ég vera stærsta verkefnið í baráttunni gegn glæpum og lögleysu.