skipulögð glæpastarfsemi.
Herra forseti. Skipulögð glæpastarfsemi er ógn sem steðjar að öllum samfélögum. Og þar sem skipulögð glæpastarfsemi er unnin þvert á landamæri er nauðsynlegt að bregðast við henni með samvinnu ríkja, en auðvitað líka með því að taka á henni innan hvers ríkis fyrir sig, þannig að þarna held ég að hvort tveggja þurfi að koma til.
Mig langar aðeins að fjalla um þann part af skipulagðri glæpastarfsemi sem fjallað er um í nýjustu áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í maí 2019, sem áður hefur verið minnst á í umræðunni og snýr að því að á Íslandi séu vísbendingar um að hér sé stundað mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingarekstrar og ferðaþjónustu, svo og að það sé margt sem bendi til að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi. Þessu þarf að taka á og þess vegna er fagnaðarefni að nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem varðar mansal.
Herra forseti. Vegna þess að hv. málshefjandi tengdi þessi mál við hælisleitendur þá verð ég að segja að mér finnst málshefjandi vera þar á kolrangri leið. Það er einmitt samvinna ríkja með góðri móttöku fyrir hælisleitendur sem er lausnin, ekki að hvert og eitt ríki þrengi í sífellu hvernig það tekur á móti fólki í neyð (Forseti hringir.) og gerir það þannig enn útsettara fyrir misneytingu og kúgun. Þess vegna skiptir einmitt máli (Forseti hringir.) að taka vel á móti fólki á flótta og tryggja félagslega stöðu þess.