skipulögð glæpastarfsemi.
Virðulegi forseti. Mig langaði í seinni ræðu að nefna aðeins áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi á samfélag. Þrátt fyrir að vera margvísleg eru þau auðvitað öll neikvæð á sinn hátt. Þetta á við um tíðni afbrota, þetta á við um alvarleika brota og þetta á við um neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn, viðskiptalífið, t.d. hvað varðar skekkta samkeppnisstöðu. Þetta á síðast en ekki síst við um tekjumissi hins opinbera sem er tjón sem bitnar á almenningi öllum. Ítrekað hefur verið bent á og fjallað um að fjöldi lögreglumanna í landinu hefur ekki haldist í hendur við ný verkefni. Það er áragömul umræða. Lögreglumönnum sem sinna rannsóknum, t.d. í fíkniefnamálum og öðrum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi, hefur meira að segja fækkað á síðastliðnum árum. Staða löggæslumála er með þeim hætti að geta lögreglunnar til að takast á við skipulagða brotastarfsemi er mjög lítil. Þetta eru orð greiningardeildarinnar sjálfrar.
Mig langar líka til að nefna aðeins hverjir það eru sem eru í þessari skipulögðu glæpastarfsemi. Þessir hópar eru jafn fjölbreytilegir og starfsemin sem þeir vinna að, starfsemi sem teygir sig vissulega yfir landamæri. Það er vissulega alþjóðlegt vandamál en ekki sérstakt útlendingavandamál, eins og mér finnst umræðan stundum spegla. Ef við skoðum tölur um gerendur í þessum málum er það hreint ekki svo að Íslendingar séu í minni hluta afbrotamanna hvað þetta varðar, það er hreint ekki þannig. Áhersla hæstv. dómsmálaráðherra núna hefur verið á að setja ný hegningarlagaákvæði. Það er vissulega jákvætt. En á meðan hæstv. ráðherra sýnir ekki stuðning við löggæsluna sjálfa, lögregluna sjálfa, er holur hljómur í slíkri lagasetningu, þ.e. ef lögreglan getur ekki beitt þeim verkfærum sem löggjafinn færir henni. Við þekkjum í því sambandi umræðuna um málsmeðferðartíma, sem er stórt vandamál í efnahagsbrotamálum, t.d. peningaþvætti, og skattsvikin, sem eru umfangsmikill hluti svarta hagkerfisins. Þar myndi ég vilja nefna í lokin að það kemur fram í skýrslu frá 2017 að þau séu 3–7% af landsframleiðslunni, u.þ.b. 10% af heildartekjum hins opinbera. (Forseti hringir.) Ef miðað væri við að undanskot frá árinu 2016 hafi numið 4% af landsframleiðslu myndi þetta samsvara 100 milljörðum kr. Þar með eru ekki öll skattundanskot talin, þar vantar aflandseignirnar inn í.