151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Meðal þess sem hæstv. ráðherra hefur nefnt, hvað varðar viðbrögð við þessu ástandi, er sú staða sem leiddi af færri ferðamönnum, að það hafi nýst lögreglunni, einnig tekjur sem lögreglan fékk af lausn svokallaðs „silk road“-máls frá útlöndum, nýlegar alþjóðlegar reglur um varnir gegn peningaþvætti, og svo það sem ég rakti áðan um samskipti, samstarf, samráð og samræmingu, sem eru auðvitað mjög jákvæðir hlutir, sérstaklega ef skortur hefur verið á þeim. En þetta hljómar samt eins og kerfisviðbrögð við vandanum fremur en lausnir sem byggjast á hinu raunverulega eðli vandans. Samráð og samstarf þarf auðvitað að vera hluti af því en hvað með að bregðast við öllum hinum ábendingunum úr þessum góðu skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra? Hvað með tækjabúnaðinn? Hvað með sérhæfðan mannafla? Hvað með fjármagn? Hvað með heimildir? Hvað með sérþekkingu og tæknibúnað? Hvað með að bregðast við misnotkun hælisleitendakerfisins? Því að í þessum skýrslum er því lýst mjög ítarlega hvernig sú misnotkun fer fram og væri fróðlegt að ræða þau mál, í ljósi þess hversu stór þáttur það er í þessum greiningum. Og hvað með regluverkið? Hvað með heimildir til að senda glæpamenn úr landi, erlenda glæpamenn? Við þessu þarf að bregðast. Það dugar ekki að bregðast við því ástandi sem nú ríkir, og fer versnandi, eingöngu með samráðshópum. Það þarf raunverulegar aðgerðir til að grípa þarna inn í og alls ekki að ráðast í aðgerðir sem auðvelda glæpagengjum starfsemina, aðgerðir á borð við lögleiðingu fíkniefna eða að búa til hælisleitendakerfi sem auðveldar misnotkun þess.