151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Það hefur einfaldlega verið mjög skýr forgangsröðun hjá mér og ráðuneytinu og lögreglunni í þessum málaflokki og í þessum aðgerðum. Það er auðvitað sérstakt að málshefjandi og hv. þingmaður agnúist út í forgangsröðun fjármuna innan lögreglunnar. Við höfum aukið fjármuni lögreglunnar á nokkrum árum úr 14 í 17 milljarða. Það eru ekki aðeins þeir fjármunir sem fengnir eru úr verkefnum lögreglunnar heldur vegna þess að það er skýr forgangsröðun í bætta löggæslu á öllum sviðum. Því erum við að halda áfram með því að tryggja mannafla til að reyna að tryggja öryggi borgaranna með sem bestum hætti og hafa skýra forgangsröðun í að taka á þeirri skipulögðu brotastarfsemi sem lýst er í skýrslu frá greiningardeild sem ríkislögreglustjóri leiðir. Það er ríkislögreglustjóri sjálfur sem leiðir þessa vinnu. Þar hafa komið fram skýrar ábendingar til mín og m.a. gerðar tillögur í samræmi við 89. gr. sakamálalaga um að breyta reglugerð um rannsókn sakamála með þeim hætti að víkka gildissvið og skilyrði þannig að unnt verði að beita aðferðum á fyrri stigum rannsókna sem getur verið afar mikilvægt í rannsóknum er varða skipulagða brotastarfsemi. Það er verið að setja þessa reglugerð í þágu afbrotavarna sem mun m.a. lúta sérstaklega að heimildum og getu lögreglu til að hafa eftirlit með og afla upplýsinga í því skyni að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi, af því að hv. þingmenn spurðu líka hvað væri verið að gera, ekki bara hvað væri búið að gera. Það má líka nefna allan þann fjölda frumvarpa sem hér hafa verið samþykkt á þinginu, hvort sem það er um aðgerðir gegn peningaþvætti, lög um persónuupplýsingar í löggæslutilgangi, mansalsákvæði, breytingar á lögregluákvæðum, breytingar á lögum um framsal sakamanna og þannig mætti áfram telja.

Hér er mikið kapp lagt á að bæta stöðu lögreglunnar og gera okkur kleift að takast á við vandann, en það verður viðvarandi verkefni og við megum ekki hætta. Við þurfum að halda áfram og átta okkur á því að (Forseti hringir.) það er mikið verk fram undan til að lögreglan hafi áfram þá burði, það fjármagn og þann búnað sem þarf til að sinna þessu. (Forseti hringir.) En það hefur verið raunveruleg forgangsröðun í þessi mál.