151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[14:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, sem miða einkum að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Með fyrrgreindum lögum, nr. 61/2006, er mælt fyrir um skyldu manna til að vera í veiðifélagi. Hér er byggt á löggjöf sem sett var á fyrir öld þar sem hlutverk veiðifélaga er að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra. Ljóst er að í þessum lögum er gengið út frá því að fiskstofnar í ferskvatni séu nýttir, að þeir séu veiddir. Það ber að gera með sjálfbærum hætti. Tilgangurinn með skylduaðild að veiðifélögum er að nýta hinn sameiginlega fiskstofn til hagsbóta fyrir heildina. Þetta er merkileg löggjöf sem við höfum átt hér og þingið hefur tekið fyrir í heila öld og rætt öðru hvoru. Þetta hefur verið tveggja ára vinna í atvinnuveganefnd og ég held að við séum með góða niðurstöðu í þessu máli.