151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

aðgerðir gegn markaðssvikum.

584. mál
[14:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég ætlaði reyndar að tjá mig um atkvæðagreiðsluna en það gildir einu. Hér er um að ræða mál með mjög jákvæða yfirskrift, jákvætt markmið, en undir liggur heill lagabálkur Evrópureglna. Á undanförnum árum hefur það gerst hjá okkur ítrekað að við höfum lögleitt slíka lagabálka án þess kannski að menn geri sér almennilega grein fyrir því hver raunveruleg áhrif verða, til að mynda fyrir lítil fyrirtæki á Íslandi. Komið hafa upp dæmi þess að undanförnu að lítil íslensk fyrirtæki hafi verið sektuð, jafnvel um milljónir króna, fyrir að gera ekkert annað af sér en að kunna ekki nógu vel að uppfylla allar nýjustu skriffinnskukröfurnar. Hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur í mjög mörgum, raunar öllum, tilvikum þar sem slík mál hafa komið fyrir nefndina gert á þeim verulegar úrbætur og það á við í þessu máli líka, ekkert við hann að sakast hvað það varðar. En hér hefði ráðuneytið frekar átt að koma með mál sem er sniðið að íslenskum aðstæðum en ekki erlendum stórfyrirtækjum. Markmiðið er hins vegar jákvætt og því engin ástæða til að vera á móti þessu máli. En ég greiði ekki um það atkvæði.