151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti okkar í hv. utanríkismálanefnd um nýja stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Það er sérstaklega gaman að við skulum geta tekið þetta mál hér til umræðu í ljósi fundarins sem haldinn er hér á landi nú þegar við erum að skila af okkur formennsku í Norðurslóðaráðinu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund aðila frá utanríkisráðuneyti, frá Rannís, frá Háskóla Íslands, Háskóla Akureyrar, frá Arctic Circle, frá Norðurslóðaneti Íslands og frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Nefndinni bárust einnig umsagnir frá þessum aðilum.

Með tillögunni felur Alþingi ríkisstjórninni að fylgja stefnu í málefnum norðurslóða sem byggist á 19 áhersluþáttum. Þessir áhersluþættir voru mótaðir í þverpólitísku samráði innan þingmannanefndar um endurskoðun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í stefnunni er fjallað um verkefni við að kynna norðurslóðir sem mikilvægan heimshluta í víðum skilningi, með tilliti til fámennis, víðáttu og fjölbreyttra vistkerfa. Megináhersla Íslands verður á baráttu gegn loftslagsbreytingum, aðlögun að umhverfisáhrifum loftslagsbreytinga, samvinnu milli landa, á frið, mannréttindi, jafnrétti, áhrif og rétt frumbyggja og loks á velferð í samfélagslegum og efnahagslegum skilningi. Samkvæmt tillögunni er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra falið að móta áætlun um framkvæmd stefnunnar og eftirfylgd hennar.

Í umsögnum til nefndarinnar kom fram ánægja með áhersluþætti 16 og 17 í stefnunni, þ.e. að styrkja stöðu og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis, byggja upp innlenda þekkingu, efla alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og móta rannsóknaáætlun um norðurslóðir. Umsagnaraðilar fögnuðu því að stutt yrði enn frekar við rannsóknir á norðurslóðum og alþjóðlegt vísindasamstarf og ítrekað var að samfélagsþróun þyrfti að hvíla á þekkingu og traustum rannsóknum. Mikilvægi norðurslóða væri vaxandi og nauðsynlegt að horfa heildstætt á málefni norðursins þar sem verkefni samfélaga framtíðarinnar væru krefjandi og kölluðu á framsýnar lausnir, öflugt samstarf og víðtæka þekkingu fræðasamfélagsins, ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Í umsögnum kom einnig fram ánægja með áhersluþátt 12, þ.e. um að efla vöktun með bættum fjarskiptum og útbreiðslu gervihnattakerfa.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ólík sjónarmið varðandi 19. áhersluþátt stefnunnar, um að efla Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða. Bent var á að fræðasamfélagið á Akureyri hefði haft forystu um rannsóknir á samfélögum á norðurslóðum og vakið athygli á málefnum norðurslóða meðal Íslendinga. Fræðimenn á Akureyri þyrftu stuðning við að halda þessu starfi áfram. Í umsögn Háskólans á Akureyri kemur fram að skólinn hafi árið 2001 komið að stofnun Háskóla norðurslóða, alþjóðlegra samtaka háskóla- og rannsóknastofnana á norðurslóðum. Við skólann sé boðið upp á nám í norðurslóðafræðum og nám til meistaragráðu í heimskautarétti. Við Háskólann á Akureyri sé starfrækt öflugt fræðasamfélag á vettvangi sjálfbærni og samfélags- og umhverfisbreytinga á norðurslóðum. Hins vegar kom einnig fram að rannsóknir á norðurslóðamálum færu fram um allt land og að nauðsynlegt væri að nýta þá þekkingu sem til staðar væri á höfuðborgarsvæðinu. Í umsögn Háskóla Íslands var bent á að til að efla rannsóknir á sviði norðurslóða og nýta niðurstöður vísindarannsókna sem best hér á landi væri mikilvægt að allir háskólar landsins ynnu saman. Hvetja þyrfti innlenda fræðimenn til aukinnar samvinnu sem myndi styrkja þá enn frekar við umsóknir um fjárveitingar úr erlendum sjóðum og verkefnum.

Nefndin fagnar því að ráðist hafi verið í gagngera endurskoðun á norðurslóðastefnu Íslands. Fyrri stefna íslenskra stjórnmála gagnvart málaflokknum byggðist á þingsályktun frá árinu 2011 og þróun stjórnmála og umhverfismála á norðurslóðum hefur verið gríðarlega hröð á síðustu árum. Málefni norðurslóða eru nátengd hagsmunum Íslands á alþjóðlegum vettvangi og nauðsynlegt að stefna stjórnvalda sé skýr. Það er nýrri stefnu í málefnum norðurslóða til framdráttar að vinna við hana hafi farið fram í samvinnu þingmanna þvert á stjórnmálaflokka og að höfðu samráði við fjölbreytta hagaðila. Stefnan er unnin út frá heildstæðri sýn á norðurslóðir þar sem áréttað er að málefni norðurslóða snerti verksvið nokkurra ráðuneyta.

Nefndin ítrekar mikilvægi samvinnu milli innlendra fræðimanna og rannsóknastofnana á sviði norðurslóðamála. Ekki má skilja 19. þátt stefnunnar á þann veg að rannsóknir á sviði norðurslóða skuli eingöngu fara fram á Akureyri enda er sérstaklega hvatt til aukins samráðs á málefnasviðinu. Efla þarf íslenskt þekkingarsamfélag í heild sinni til þess að hámarka áhrif íslenskra fræðimanna á alþjóðlegum vettvangi. Fjölmörg verkefni sem við blasa verða aðeins leyst á grunni mikillar gagnaöflunar, vísindarannsókna og nýsköpunar.

Nefndin hvetur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til að vinna ötullega að framkvæmd stefnunnar. Mikilvægt er að auka samstarf milli ráðuneyta og stofnana á málefnasviðinu til að tryggja að sá metnaður sem birtist í stefnunni skili sér í raunverulegum aðgerðum með tilheyrandi fjármögnun. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að ráðherra verði haldið upplýstum um vinnu annarra ráðuneyta og að ráðherra haldi Alþingi upplýstu um framkvæmd stefnunnar.

Að þessu sögðu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa allir í hv. utanríkismálanefnd, þ.e. hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen formaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sú sem hér stendur, Logi Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Virðulegur forseti. Svo hljóðar nefndarálit utanríkismálanefndar um norðurslóðastefnu okkar. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá held ég að óhætt sé að fagna því að okkur sé á þessum tímapunkti að takast að afgreiða þetta mál frá Alþingi Íslendinga. Það eru komin tíu ár frá því að síðasta stefna var samþykkt með þingsályktun árið 2011 og óhætt að segja að töluvert mikið hafi breyst á þessu svæði sem slíku. Við verðum stöðugt vitni að því að ísinn bráðnar sem aldrei fyrr en það er líka þannig að alþjóðasamfélagið horfir í auknum mæli inn á þetta svæði. Vel að merkja sjáum við þess merki núna, þegar við skilum af okkur formennsku í Norðurslóðaráðinu og Norðurskautsráðinu, en hér eru staddir utanríkisráðherrar þjóða sem ráðið skipa. Við sjáum líka gríðarlega mikinn áhuga á þessu svæði og framtíð þess hjá þjóðum sem eru okkur fjarri á landakortinu. Eins og ég hef oft talað um áður, þegar að norðurslóðamálum kemur, sér maður að áhuginn liggur svo víða og svo langt í burtu frá okkur. Það er einhver ástæða fyrir því og þær eru örugglega margar. Þeim mun mikilvægara er að Ísland hafi skýra stefnu þegar að þessum málaflokki kemur.

Virðulegur forseti. Ég held að sú stefna sem hér er til umræðu rammi áherslur okkar vel inn. Þær eru auðvitað margbreytilegar því að um sérstakt mál er að ræða. Hjartað þarna er loftslagsmálin og umhverfismálin en þetta kemur líka inn á fjarskiptin, siglingaleiðirnar, öryggismálin. En sá punktur sem við lögðum aðeins áherslu á í nefndarálitinu eru tækifæri okkar Íslendinga þegar kemur að nýsköpun og rannsóknum á þeim málaflokkum sem tengjast norðurslóðum. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég held að tækifærin þar séu gríðarleg. Það var virkilega ánægjulegt að fá til okkar góða gesti sem hafa verið að stunda rannsóknir sem hægt er að fella undir norðurslóðarannsóknir. Þá velta kannski sumir því fyrir sér hvað það er nákvæmlega og það er rétt að Háskólinn á Akureyri og samfélagið þar, með Norðurslóðanetinu, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og skrifstofum málaflokka, þ.e. verkefna, undir Norðurskautsráðinu, eru auðvitað beint dæmi um norðurslóðarannsóknir en þær eru stundaðar svo víða. Þannig er hægt að segja að mikið af raunvísindarannsóknum á sviði veðurfars, umhverfismála og annars hjá Háskóla Íslands falli líka undir norðurslóðarannsóknir. Það er eitt af því sem fram kom í samtali okkar að kannski þurfi íslenskir vísindamenn að berja sér meira á brjóst og kynna sig sem vísindamenn sem stundi norðurslóðarannsóknir.

En eins og við komum inn á í nefndarálitinu þá er eitt að sjá þessi tækifæri, og þau eru útlistuð í þessari stefnu, og með þessum 19 punktum fylgir greinargerð þar sem ítarlegar er farið í þá punkta sem um ræðir, en annað að hagnýta tækifærin sem þarna eru og láta stefnuna verða að veruleika. Það er alveg ljóst að tryggja þarf að fjármagn fari í þessar mikilvægu rannsóknir. En það eitt og sér er ekki nóg heldur þarf líka að tryggja hagnýtingu þeirra niðurstaðna sem fást úr rannsóknunum. Það er líka ljóst að þessi málaflokkur, þó að hann eigi með réttu heima í utanríkisráðuneytinu, þetta er utanríkismál, tengist svo mörgu. Þess vegna er mjög mikilvægt að utanríkisráðuneytið finni leiðir til þess að halda vel utan um þá þræði þar sem verið er að vinna í norðurslóðamálum í öðrum ráðuneytum og, eins og við segjum hér, upplýsi okkur á Alþingi um framgang þessarar stefnu. Það er líka ljóst að fjöldi stofnana er að vinna í þessum málaflokki og þeim mun mikilvægara er að halda utan um alla þessa þræði svo að það sé skýrt hver er að gera hvað og hvernig við nýtum best hæfni og þekkingu stofnana, einstaklinga og háskóla sem að þessum málaflokki vinna.

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þessu lokið hér. Ég þakka hæstv. forseta fyrir tækifærið til að koma þessu máli hér til umræðu hratt og örugglega. En eins og tekið er fram í nefndaráliti ríkir um þetta almenn samstaða í hv. utanríkismálanefnd, enda var skjalið unnið í þverpólitískri nefnd og ætti þar af leiðandi að hafa fengið víðtæka umfjöllun meðal allra stjórnmálaflokka. Það er ánægjulegt að okkur skuli hafa tekist að vera með málið á dagskrá á þessum degi.