151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[15:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka framsögumanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir að flytja okkur nefndarálit utanríkismálanefndar og gleðjast yfir því að við skulum vera að ræða í síðara sinn tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Það er sérstaklega áhugavert á þessum tímamótum þegar fram undan er, á allra næstu dögum, stór og merkilegur fundur Norðurskautsráðsins hér á Íslandi þar sem Ísland skilar af sér farsælli formennsku í hendur annars norðurskautsríkis, Rússlands.

Ný norðurslóðastefna leysir af hólmi núgildandi stefnu sem var samþykkt á vordögum 2011. Það hefur margt breyst á þessu tímabili, þessum áratug. Sviðsmyndin sem blasir við, hvort sem það eru umhverfislegir þættir eða á hinu alþjóðlega sviði í stjórnmálum, er mjög breytt. Verkefnin sem nú þegar blasa við samfélögunum gera það enn frekar í allra nánustu framtíð og aðstæður eru krefjandi. Það kallar á framsýni, öflugt samstarf, bæði svæðisbundið og á alþjóðavísu.

Samfélögin á norðurslóðum eru að mörgu leyti mjög sérstök. Það er strjálbýli á flestum stöðum. Þau eru afskekkt og víða skortir á nauðsynlega innviði. Samfélögin eru þó ekki einsleit enda er þetta gríðarlega stórt svæði, norðurslóðir sem við skilgreinum svo. Á þessu stóra svæði búa um 4 milljónir manna. Víða eru svæðin vel tæknivædd og meira að segja nettengd og rafræn tengsl eru góð og margir tæknilegir þættir í bærilegu horfi. Það er farið að vinna af mikilli alvöru á þessum svæðum í grænum og umhverfisvænum lausnum því að þessi svæði gera sér kannski betur grein fyrir því en mörg önnur, finna beinlínis fyrir því á eigin skinni, hverjar breytingarnar eru að verða í umhverfi okkar og loftslaginu.

Mannlífið á norðurslóðum er þáttur sem er alltumlykjandi í okkar huga. Aðstæðurnar eru ólíkar en víðast er um að ræða rótgróin samfélög með sín sérkenni og menningu en þar sem íbúar búa við mismunandi kjör. Ýmsa sameiginlega þætti þarf að takast á við, þ.e. samgöngur, fjarskipti, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika. Allt eru þetta lífshagsmunir fyrir alla íbúana en ekki síst fyrir ungt fólk. Það er það sem við höfum hugann við, að skapa aðstæður til framtíðar fyrir ungt fólk svo að það velji sér framtíðarvettvang til búsetu og til að byggja upp á norðurslóðum. Frumbyggjarnir eru hluti af þeim sem við köllum íbúa á norðurslóðum og sex samtök frumbyggja eiga aðild að Norðurskautsráðinu. Við höfum alltaf talað máli frumbyggja af hálfu Íslendinga og í þeirri tillögu sem vonandi verður að stefnu Íslands er hnykkt á því.

Varðandi þau atriði sem ég hef tæpt á hefur Vestnorræna ráðið, sem ég er svo ánægður með að sitja í, lagt áherslu á þessi atriði í sínum verkefnum. Vestnorræna ráðið samanstendur af Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Við höfum lagt sérstaka áherslu á hlutskipti ungmenna og framtíð ungs fólks á norðurslóðum.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið og fram kom hjá framsögumanni nefndarálits er þessi stefna í 19 liðum. Ég leyfi mér að segja að vel hafi tekist til. Samstaða var um verkefnin og hugað er að langflestum atriðum sem eru aðkallandi og eru orðin áleitin. Það eru umhverfisþættirnir, það er mengun og það er þessi stóraukna umferð vöruflutningaskipa og raunar skemmtiferðaskipa líka um norðurslóðir sem verður að segjast að kallar á sértæka árvekni. Þetta er gríðarlega víðfeðmt svæði sem erfitt er að vakta með góðu móti. Svo erum við auðvitað farin að ræða um það að siglingaleiðin norður eftir muni opnast á næsta áratug eða næstu tveimur áratugum. Hætta á mengunarslysum er því raunveruleg og huga þarf að öryggi sjófarenda. Brýnt er að vinna gegn þessari mengunarógn, hvort sem það er af völdum olíuleka, eiturefna, geislavirkra efna eða plastsúrgangs, og er fjallað um það í þessari tillögu.

Að lokum, herra forseti, langar mig að nefna eitt atriði sem líka er drepið á í nýrri norðurslóðastefnu. Það varðar öryggi þeirra sem ferðast um norðurslóðir, hvort sem það er á sjó eða í lofti, og leiðsögukerfi, fjarskipti og gevihnattaleiðsögn. Þar eru alvarlegir brestir sem hafa áhrif á nákvæmni og umferð, ekki síst samfellu og stöðugleika í flugumferð á Norður-Atlantshafinu og snertir beinlínis og sérstaklega Íslendinga og Grænlendinga. Þessi gervihnattaleiðsögutæki eru af tvennum toga. Annars vegar evrópskt kerfi, EGNOS-kerfið, og svo hið ameríska, WAAS-kerfið, en eins og sakir standa eru bæði þessi lönd, Grænland og Ísland, á jaðri þess að geta nýtt sér þessa tækni þó að það sé gert að hluta. Það þurfa að koma til samningar um aðgang að öðru hvoru kerfanna eða báðum og vonandi tekst það. Nýjustu upplýsingar segja okkur að unnið sé að samningum í viðkomandi ráðuneytum á Íslandi.

Herra forseti. Með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir að þingsályktun er lögð áhersla á mikilvægi þess starfs sem unnið er á vettvangi Norðurskautsráðsins og annarra stofnana sem vinna að norðurskautsmálum. Þar eiga Íslendingar áfram að leggja sitt af mörkum eins og hingað til. Ég þykist vita að til þess stendur fullur metnaður. Fullur vilji er til þess eins og þessar 19 tillögur sem stefnan felur í sér bera með sér.