151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að ég haldi nú áfram og svari spurningum eða velti vöngum út frá því sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi í andsvörum sínum þá er ég náttúrlega ósammála þeirri fullyrðingu þingmannsins að verið sé að moka fé í forríkt fólk. Auðvitað eru eigendur fjölmiðla misjafnlega settir fjárhagslega. Sú sem hér stendur hefur t.d. starfað um árabil á litlum héraðsfréttamiðli sem heitir Víkurfréttir og þekkir til að mynda umhverfi héraðsfréttamiðla nokkuð vel. Við erum líka með undir í þessu máli netmiðla og alls kyns miðlun. Þetta á ekki bara við um sjónvarpsstöðvar en þær eru einnig í mjög ólíkri stöðu. Það er ekki hægt að setja þessi fyrirtæki undir sama hatt og fullyrða að verið sé að moka fé í forríkt fólk vegna þess að svo er svo sannarlega ekki. Þarna er um að ræða lagabreytingu, aðgerð, m.a. til að bregðast við Covid og áhrifum faraldursins á rekstrarumhverfi þessara miðla. Til upplýsingar bendi ég þingmanninum einnig á að lesa og fara aðeins yfir það sem sagt er á bls. 6 og 7 í frumvarpinu. Þar eru teknar saman tölur um rekstrarumhverfi fjölmiðla. Þar sér maður svart á hvítu hversu mjög tekjur fjölmiðla hafa dregist saman á frekar stuttum tíma. Ef við horfum bara áratug aftur í tímann er þetta tuga prósenta tekjusamdráttur. Eins og ég sagði er markmið frumvarpsins að styrkja lýðræðislega umræðu á Íslandi en einnig íslenskuna vegna þess að við viljum hafa íslenska og sterka fjölmiðla á Íslandi.