Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kannski ekki alveg rétt hjá mér að tala um að það væru óskýrar ástæður. Mér þótti þær bara ekki nógu góðar og þykir enn. Allt er náttúrlega breytingum háð og allt er ævinlega á hverfanda hveli og ef við tökum þann pólinn í hæðina alltaf þá gerum við náttúrlega aldrei neitt. Svona sjóður, starfsfólk þar hlýtur að finna leiðir til að mæta ólíkum aðstæðum hverju sinni.

Í mínu seinna andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann út í það hvort henni þyki ekki hætt við því, ef ekki er þak á þessum styrkjum, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson vék að hér áðan, að stóru aðilarnir, stærstu aðilarnir, muni taka til sín of stóra hlutdeild af því sem til skiptanna er. Þetta er takmörkuð fjárhæð sem til skiptanna er og ef ekki er þak er hætt við því að meginhluti fjárins renni til stóru aðilanna eins og gerðist í Covid-styrkjunum og að litlu fjölmiðlarnir bíði skarðan hlut og fái jafnvel ekki neitt.