151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort ástæðurnar séu góðar eða ekki, það má náttúrlega deila um. Ég held að þær séu þó gildar. Þetta er ekki einfalt og ofan í þessa vinnu kemur Covid, eins og ég sagði áðan. Við þurfum alla vega að sameinast um markmiðið sem ég geri ráð fyrir að þingheimur sé sammála um. Við getum ekki endalaust haldið áfram að deila um á hverju eigi að byrja og um nákvæma útfærslu. Við verðum einhvern veginn að byrja einhvers staðar vegna þess að tölurnar sýna okkur það. Ég vitnaði áðan í texta í frumvarpinu sjálfu þar sem farið er yfir tölulegar upplýsingar varðandi rekstrarumhverfi fjölmiðla og maður sér það mjög vel þar að tekjuskerðingin hefur verið mjög mikil síðustu ár. Fyrir því eru svo sem margar ástæður. Umhverfið er erfitt og svo bætast við þessar erlendu efnisveitur og annað. Það eru mjög miklar og hraðar breytingar á þessum markaði sem við þurfum auðvitað að bregðast við vegna þess að þetta gerist svo ofboðslega hratt. Ég held að ef við gerum lítið sem ekki neitt verðum við kannski ekkert mikið lengur með öfluga íslenska fjölmiðla. Netflix er mjög gott út af fyrir sig sem ákveðin afþreying og viðbót og You Tube mögulega líka og fleiri miðlar en ég vil ekki missa héraðsfréttablöðin mín og Ríkisútvarpið og N4 og alla þá góðu fjölmiðla sem við höfum enn þá hér á landi.