151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifuðum undir nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar með fyrirvara og ég hyggst gera grein fyrir okkar sjónarmiðum hér í stuttri ræðu. Fyrst vil ég segja það að við styðjum málið og teljum mjög brýnt að einkareknir fjölmiðlar fái stuðning frá ríkinu. Við teljum það mikilvægt fyrir samfélagsumræðuna. Það styrkir lýðræðið. Það að hafa fjölbreytta og öfluga flóru fjölmiðla teljum við einfaldlega vera samfélaginu til góða. Okkur finnst þetta frumvarp því mikilvægt en verðum hins vegar að viðurkenna það, eins og svo oft er, að hefðum við fengið að ráða einar eða okkar hreyfing hefði málið kannski litið örlítið öðruvísi út. En ég tel sem sagt að markmiðið hér sé mikilvægt.

Fyrst langar mig að segja, af því að hér er verið að leggja til að aðgerðirnar verði tímabundnar, að ég tel að einkareknir fjölmiðlar muni þurfa stuðning í lengri tíma en hér er gert ráð fyrir. En af því að þetta er niðurstaðan tel ég engu að síður mikilvægt að tíminn verði nýttur til þess að fara yfir reynsluna af fyrirkomulaginu og þá eftir atvikum breyta og bæta til þess einmitt að standa vörð um markmiðið sem er að styðja við fjölbreytta flóru fjölmiðla. Það eru ýmis atriði sem talin eru upp í nefndaráliti meiri hlutans eins og það að þá þurfum við að tryggja að fyrirkomulagið verði til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Sömuleiðis þurfum við að hafa í huga stöðu smærri fjölmiðla í því samhengi og mér finnst mikilvægt að þar verði skoðað hvort og þá hvernig væri til að mynda hægt að koma frekar til móts við staðbundna fjölmiðla sem geta skipt gríðarlega miklu máli á ólíkum stöðum á landinu.

Svo er einnig nefnt hvort taka mætti til skoðunar að setja á fót samkeppnissjóð til að jafna rekstrar- og samkeppnisstöðu fjölmiðla. Þetta eru allt atriði sem mér finnst mikilvægt að verði skoðuð um leið og reynsla kemur á það frumvarp sem hér er lagt til og svo verði eftir atvikum gerðar breytingar til að ná enn frekar þessum sjónarmiðum.

Svo langar mig líka að nefna að eitt af því sem ekki er nefnt hérna en mér finnst líka vel koma til greina að skoða er að koma upp sjóði fyrir rannsóknarblaðamennsku. Ég held að það gæti einnig styrkt fjölmiðlana á Íslandi.

Að því sögðu og að viðruðum þessum sjónarmiðum tel ég engu að síður mikilvægt að gera þetta frumvarp að lögum. Það mun svo þurfa að skoða í framhaldinu skattlagningu á efnisveiturnar og fjalla um málin í því stóra samhengi en, eins og ég segi, nota síðan tímann meðan þetta frumvarp er í gangi til að fara yfir fyrirkomulagið og breyta og bæta. Reynslan sýnir að þess er þörf.