151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða stuðning við ríkisrekna og einkarekna fjölmiðla. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði að það væri gott fyrir þessa fjölmiðla að fá þennan stuðning. Þá vil ég spyrja: Á hvaða hátt telur hún það gott fyrir alla þessa fjölmiðla að fá þennan stuðning? Vegna þess að miðað við frumvarpið, eins og það er sett fram, mun stærsti hlutinn fara til stærstu fjölmiðlanna sem eru þeir efnuðustu og hafa minnsta þörf á því í sjálfu sér að fá þetta. Þar af leiðandi verður mun minna til skiptanna fyrir þá litlu sem þurfa virkilega á þessu að halda ef við værum að fara eftir því hverjir þurfa og hverjir ekki. Síðan tel ég að þegar styrkjaveitingin hættir sé meiri hætta á því að þessir litlu einstæðu fjölmiðlar gefist upp en nokkurn tímann þessir stóru. Þess vegna spyr ég: Telur hv. þingmaður ekki að minnihlutaálitið sem hv. þingmenn Guðmundur Andri Thorsson og Olga Margrét Cilia eru með — þau eru þó alla vega að reyna að minnka það niður þannig að meira verði til skiptanna fyrir þá litlu — sé betur til þess fallið að ná þó alla vega því takmarki að styrkja þá sem þurfa á því að halda og sleppa því þar af leiðandi að styrkja þessa fjölmiðla sem eru reknir af auðmönnum sem hafa nóga fjármuni til að setja í og koma sínum málum á framfæri án þess að fá eitthvað af ríkistekjum og komast á ríkisjötuna til að koma sínum málum á framfæri?