151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Á sama tíma langar mig að heyra álit hennar á RÚV. Telur hún ekki að það hefði verið rétt að byrja á þeim enda að taka RÚV út af auglýsingamarkaði, að sjá bara hreinlega til þess að bæta samkeppnina? Það segir sig sjálft að þetta verður hálfgerður bútasaumur. Það er verið að reyna að bæta ákveðnum fjölmiðlum það upp sem eru í baráttunni við risann á auglýsingamarkaði sem er RÚV. Það er verið að byrja á öfugum enda. Hefði ekki verið nær að byrja hreinlega á þeim enda að taka RÚV út af auglýsingamarkaði þannig að við værum þá alla vega komin í þá stöðu að sú samkeppni á auglýsingamarkaði væri dottin út? Það myndi sennilega strax bæta stöðu þessara litlu fjölmiðla. Líka hitt sem við þurfum auðvitað að taka á og það eru erlendu fjölmiðlarnir, að skattumhverfi þeirra sé á svipuðum stað og þeirra sem eru að berjast við þá hér á Íslandi.

Síðan er það hitt sem er kannski eitt af atriðunum: Ég trúi því að eins og þetta frumvarp er sett upp séum við ekki að skila þeim árangri sem við ætluðumst til. Mér finnst einhvern veginn að við séum að renna blint í sjóinn og að við ætlum bara að taka séns á því. Jú, jú, þetta eru 400 milljónir. 400 milljónir er mikill peningur og það er sko örugglega þörf á þessum 400 milljónum í miklu betri málefni en þetta. Ég skal alveg vera með það á hreinu að það er fullt af málum sem væru tilbúin að fá 400 milljónir og gætu gert margfalt betur með fjármunina heldur en nokkurn tímann það að setja þá í þessa hít sem þarna er. Við ætlum að gera þetta og þess vegna segi ég: Við hefðum þurft að hugsa þetta allt betur áður en við fórum af stað.