151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, stuðning við einkarekna fjölmiðla. Það hefur komið fram að ríkisstjórnin og þeir sem þar eru telja mjög vel til fallið og gott til árangurs að eyða 400 milljónum í ríkisrekna fjölmiðla. Það sem er kannski það furðulegasta í því er að megninu af þessum fjármunum skuli eigi að verja til einkarekinna fjölmiðla sem þurfa alls ekki á stuðningi að halda vegna þess að þeir eru reknir af stóreignamönnum sem hafa nægt fé til að reka fjölmiðla sína á þeim grundvelli sem þeir gera í dag og þurfa ekki á stuðningi að halda.

Því miður er ég eiginlega orðlaus að því leyti til að við skulum vera í þeirri stöðu að byrja á öfugum enda. Við erum algjörlega að byrja á öfugum enda. Ef við hefðum ætlað að byrja rétt hefðum við t.d. byrjað á að taka á erlendum efnisveitum og skattleggja þær, Netflix, Viaplay og þessar veitur. Þar áttum við að byrja. Síðan áttum við líka að byrja á því, sem einkareknir fjölmiðlar og fleiri hafa verið að biðja um, að taka RÚV af auglýsingamarkaði. En nei, við byrjuðum á hvorugum þessum enda. Við byrjuðum á hinum endanum, að fara í ríkissjóð og gera einkarekna fjölmiðla háða fjármagni úr ríkissjóði og setja þá eiginlega pínulítið í smájötu við hliðina á RÚV. Hversu vitlaust getur þetta verið?

Það er verið að tala um að þetta sé Covid-mál. Ef við værum virkilega að tala um Covid-mál þá værum við að tala um allt aðra hluti. Við værum að tala um afleiðingar Covid, við værum að tala um fjármagn til að taka á veikindum og afleiðingum Covid. Það væri nær að við tækjum þessar 400 milljónir og settum þær þangað heldur en að setja þær í það að bæta stöðu þeirra fjölmiðla sem þurfa t.d. ekki á því að halda.

Ég get alveg séð að það þurfi að taka á vanda litlu fjölmiðlanna. Það segir sig sjálft að mjög hefur verið þrengt að rekstrarumhverfi þeirra í því ástandi sem er núna. Það segir sig sjálft að auðvitað gilda ýmis úrræði fyrir þá sem ríkisstjórnin hefur sett inn í Covid-málum. En að við skulum vera að setja þessa fjölmiðla á ríkisjötuna með RÚV er eitthvað sem er rangt og einhvern veginn er ekki heilbrigður hugsunargangur á bak við það. Ég bara næ ekki þessari aðferðafræði. Ef við tökum RÚV af auglýsingamarkaði, sem væri fyrsta skrefið, myndi það strax bæta stöðu litlu fjölmiðlanna. Eitthvert þurfa auglýsingarnar að fara.

Á sama tíma yrðum við auðvitað að girða fyrir það að erlendu fjölmiðlarnir fengju allt. Það ætti ekki að vera vandamál ef við tækjum á því á sama tíma. Ég held líka að þá yrði staða þeirra fjölmiðla sem við erum núna að reyna að setja á ríkisjötuna mun betri og þeir þyrftu ekki að fara þessa leið. Ég tel að þeir sem hafa stofnað einkarekna fjölmiðla hafi ekki stofnað þá í þeim tilgangi að enda sem hluti af ríkisreknu batteríi og vera háðir því.

Það er annað sem hefur komið fram hér sem er svolítið furðulegt. Þetta er tímabundið úrræði en ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að það verði framlengt og það verði áfram. Einhvern veginn er það þannig að þegar við erum einu sinni búin setja lög og einu sinni búin að setja eitthvað á fjárlög virðist vera mjög erfitt að stöðva það og taka það til baka. Ég held að það verði svolítið erfitt við að eiga.

Við erum að tala um fréttir og fréttatengt efni sem á að styrkja. Svo er líka spurning: Hvað er frétt og fréttatengt efni? Við getum líka spurt okkur að því. Eru það bara fréttir sem við sjáum? Hvað með t.d. stöð sem er kannski ekki með venjulegan fréttatíma heldur sportfréttatíma? Telst það fréttatengt efni og geta þeir fengið styrk eða eru þeir útilokaðir af því að þeir fjalla eingöngu um íþróttir? Eða einhver sem fjallar eingöngu um listir, fréttir í sambandi við listir? Hvar liggur munurinn?

Ég held að þetta frumvarp sé eiginlega hálfgerður óskapnaður og hafi ekki verið hugsað til enda. Ég verð bara að segja að því meira sem ég skoða það því meira er ég á móti því. Ég held að ef við gerðum eitthvað af viti væri frumvarpið dregið til baka og við myndum byrja á réttum enda. Við myndum byrja á því, eins og ég hef áður sagt, að taka á erlendum efnisveitum, taka RÚV af auglýsingamarkaði, koma hlutunum í það umhverfi sem verður þá heilbrigt samkeppnisumhverfi og síðan getum við farið að tékka á því hverju litlu fréttamiðlarnir á landinu þurfa á að halda.

Við verðum að átta okkur á því að umhverfið er að breytast og það breytist mjög hratt. Ég sé það bara á því hvernig ég vil fá mínar fréttir eða fréttatengt efni. Ég vil fá það í blaðaformi, mér finnst þægilegra að lesa það þannig, en ég sé að börnin mín lesa aldrei neinar fréttir á því formi heldur eingöngu á netinu. Breytingarnar eru að verða þannig að sennilega útrýmast hættir blaðaútgáfunnar sem er kannski næsta skref. Þess vegna er þetta umhverfi að breytast svo hratt.

Ég tel að við séum komin í öngstræti með því að vera með þessa ríkisstyrki fyrir fjölmiðla og ég óttast allra mest að stærsti hlutinn af þessum 400 milljónum fari til þeirra sem þurfa minnst á því halda og að hinir sem mest þurfa á því að halda fái það lítið að það gagnist þeim lítið sem ekkert. Þar af leiðandi er tilgangurinn með þessu frumvarpi, sem var kannski góður í upphafi, algjörlega brostinn og skilar því ekki sem hann átti að ná.