151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:29]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er fráleitt sjálfgefið að ríkið gangi inn með skattfé til að styðja við einkarekstur og gildir þá einu á hvaða sviði það er, hvort það er í fjölmiðlum eða einhverju öðru. Af þeirri ástæðu kemur kannski svarið við þeim vangaveltum sem hafa komið upp hjá nokkrum hv. þingmönnum um af hverju sólarlagsákvæðið sé í þessu frumvarpi. Það er væntanlega, að mínu viti og frá mínu sjónarhorni séð, fyrst og fremst til að senda út skýr skilaboð um það að beinn rekstrarstyrkur úr ríkissjóði til einkarekinna fyrirtækja sé ekki sjálfgefinn og hann sé ekki kominn til að vera heldur sé hann hér til að svara ákveðnu millibilsástandi sem ég ætla að fara nokkrum orðum um.

Ég held að án nokkurs vafa sé hægt að staðhæfa að rekstrarstaða einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hafi ekki verið verri síðan ljósvakarekstur ríkisins eða einokun ríkisins á rekstri ljósvakamiðla var afnumin. Stærri fjölmiðlarnir, sem ég kem frekar að hér á eftir, sem stunda frumframleiðslu á fréttum, ef við eigum að kalla það því óhönduga nafni, þ.e. meginstraumsfréttamiðlar eins og við þekkjum þá og eru nú ekki orðnir margir eftir í einkarekstri, kannski þrír sem eitthvað kveður að, þeir eru allir reknir með miklu tapi, meira tapi heldur en við höfum þekkt áður, langtímum og árum saman.

Það er margt sem veldur því að rekstrarstaða einkarekinna fjölmiðla hefur versnað og það fer dálítið eftir því í hvaða geira fjölmiðlunar þeir eru. Við getum sagt að tilkoma efnisveitnanna stóru á borð við Netflix, Viaplay og aðrar slíkar hafi gert út af við áskriftasjónvarp eins og við þekktum það kannski best þegar hæst stóð á stönginni hjá Stöð 2 og mjög stór hluti íslenskra heimila var með áskrift að þeirri stöð. Tilkoma þessara stöðva, alþjóðlegu efnisveitnanna sem selja efni sitt afar ódýrt í krafti þess hversu margir kaupa úti um allan heim, hefur eiginlega gert út af við sölu á áskriftasjónvarpi, einkum og sér í lagi afþreyingarsjónvarpi, úti um allt, líka á Íslandi.

Síðan höfum við þá stöðu hér á auglýsingamarkaði að við getum svona gróflega áætlað — þetta er ekki gert af mikilli nákvæmni, þetta er frekar nálgun — að hlutur útlendra samfélagsmiðla á íslenskum auglýsingamarkaði, þ.e. auglýsingar sem eru ætlaðar til birtingar á Íslandi fyrir íslenskan markað, sé kannski kominn upp í og jafn vel yfir það að vera 20%. Það er svipuð hlutdeild og Ríkisútvarpið hefur á íslenskum auglýsingamarkaði. Útlendu miðlarnir borga enga skatta á Íslandi og hafa engum skyldum að gegna og skekkir það auðvitað mjög samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla hér. Við höfum þá stöðu að af heildarauglýsingamarkaðnum á Íslandi eru annars vegar útlendir miðlar með 20% og hins vegar ríkið sjálft með önnur 20%. Eftir standa þá að hámarki 60% af íslenskum auglýsingamarkaði til skiptanna fyrir íslenska einkarekna fjölmiðla. Þessi samkeppnisstaða er auðvitað svo skökk að við það verður ekki unað.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar hér áðan, þar sem hann vitnaði til þess sem kom fram í þinginu um daginn, að verið væri að vinna að skattlagningu þessara miðla á evrópskum vettvangi — reyndar er líka verið að gera það á norrænum vettvangi — og væntanlega væri einhverra niðurstaðna að vænta um mitt þetta ár. Það gefur okkur að parti til svarið við því af hverju við tímabindum lögin og af hverju við setjum sólarlagsákvæði. Ef við horfum á þetta tvennt sem ég nefndi sem samkeppnisskekkjandi stöðu á íslenskum markaði, annars vegar skattlausa veru útlendra miðla á markaðnum og síðan fyrirferðina hjá Ríkisútvarpinu á markaðnum, og berum nú saman tölurnar er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að 400 milljónir komi til skiptanna til aðstoðar við einkarekna fjölmiðla, ríkið er með um 2.000 milljónir í auglýsingatekjur á þessum markaði og ef það er rétt áætlun sem kom fram hjá sumum gestanna sem hafa verið að nálgast þessa tölu má ætla að aðrar 2.000 milljónir fari í hlut útlendra samfélagsmiðla, skattlausra á Íslandi, og þá eru 4 milljarðar sem íslenskir einkareknir fjölmiðlar hafa ekki aðgang að ef við getum orðað það þannig. Það er tíföld sú upphæð sem við erum að leggja til að komi til tímabundinnar aðstoðar við einkarekna fjölmiðla.

Það er við þessar aðstæður sem hægt er að fallast á að grípa til aðgerða af þessu tagi. Þetta eru tímabundnar ráðstafanir sem taka tillit til mismunar og ef við horfum til útlendu miðlanna skattalegrar mismununar á þessum markaði fyrir einkarekna íslenska fjölmiðla. Það er það sem í mínum huga réttlætir að gripið sé inn með þessum hætti, tímabundið meðan verið er að greiða úr þessari stöðu á markaðnum.

Ég vildi aðeins víkja að því sem er kannski meginmálið í breytingartillögu minni hlutans sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson gerði að umtalsefni áðan. Ég er kannski búinn að útskýra, a.m.k. frá mínum sjónarhóli, hver er ástæðan fyrir því að hafa sólarlagsákvæði í frumvarpinu. Síðan er það spurningin um litla og stóra fjölmiðla. Það eru þó þessi mörk, þetta þak sem kveður á um að enginn einn fjölmiðill megi fá í sinn hlut, án tillits til stærðar, meira en 25% af þeirri heildarupphæð sem kemur til úthlutunar. Við getum þá gróflega sagt að enginn einn megi fá meira en 100 milljónir af þeim 400 sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar.

Mikilvægi fjölmiðla ræðst ekki í öfugu hlutfalli við stærð þeirra, það er það sem ég vildi koma hér að. Í mínum huga er ekkert í grunnhugsuninni á bak við þetta frumvarp, í þeim aðstæðum sem við erum að bregðast við með því, sem ætti að segja að meira lægi á því að styrkja litla fjölmiðla en stóra. Hlutfallslega koma stóru fjölmiðlarnir miklu verr út úr þeim markaðslegu aðstæðum sem ég var að lýsa hér áðan heldur en þeir litlu vegna þess að þeir eiga meira undir áskriftartekjum á borð við það sem Stöð tvö byggði tilveru sína á, og er meira og minna horfið núna út af stóru efnisveitunum, og síðan auglýsingatekjum sem eru farnar að renna inn í þessa útlensku miðla annars vegar og Ríkisútvarpið hins vegar sem hefur verið um langa hríð. Litlu vefmiðlarnir sem verið er að skírskota til hér hafa stærstan hluta af tekjum sínum með öðrum hætti heldur en þeim sem ég var að lýsa.

Síðan verðum við að mínu viti líka að gera greinarmun á eðli þessara miðla. Við höfum þessa svokölluðu stóru miðla sem auðvitað eru dvergar í öllum alþjóðlegum samanburði, evrópskum og jafnvel norrænum. Þeir fjölmiðlar sem ég var að vísa til áðan, og eru kannski þrír núna eftir í einkarekstri, eru í þessu vonda hugtaki sem ég nefndi frumframleiðslu á fréttum. Þetta eru meginstraumsfjölmiðlar sem reka á íslenskan mælikvarða til þess að gera stórar ritstjórnir sem eru í því að afla frétta dagsdaglega og miðla þeim til almennings.

Svo höfum við hina sortina af fjölmiðlum sem gjarnan er þá vísað til sem þessara litlu fjölmiðla sem af sumum sem hér hafa talað má skilja að ættu að fá hlutfallslega meira en hinir stóru. Fyrir því eru einfaldlega engin rök, ekki nema bara almennt að lítið sé betra en stórt, að smátt sé fagurt eða eitthvað slíkt. Mikilvægið ræðst ekki þarna. Mikilvægið ræðst af því að hér séu einhverjir fjölmiðlar sem eru nógu burðugir til að reka sjálfstæðar fréttastofur og framleiða, ef það má kalla það svo, skrifa, búa til fréttir unnar frá grunni og eru með þessa, ég vil nú ekki segja alltumfaðmandi eða alltumlykjandi, almennu fréttaþjónustu meðan litlu fjölmiðlarnir sem stundum er verið að vísa til eru ekki í þeim geira fjölmiðlunar. Þeir eru meira í því að leggja út af fréttum og þeir búa oft og tíðum til prýðilegar fréttaskýringar. Það er eðlismunur á netmiðli sem nýtir sér og dreifir annarra miðla fréttum og leggur síðan út af þeim, ræðst í stöku fréttaskýringar sem eru fínar og nauðsynlegar og mikilvægar en koma ekki í staðinn fyrir meginstraumsfréttamennsku. Núna eru á einkareknum grundvelli kannski bara eftir þrjár slíkar fréttastofur sem eitthvað kveður að. Það er með öðrum orðum ekkert sem segir að í þessari aðgerð eigi fremur að huga að því að styrkja smáu fjölmiðlana en þá sem ég nefni sem meginstraumsfjölmiðlana sem allir eiga það sameiginlegt að vera reknir núna og hafa um langt skeið verið reknir með dúndrandi tapi.

Í þessari umræðu hefur komið fram það sjónarmið að þessir stóru meginstraumsfjölmiðlar séu reknir af auðmönnum sem hafi í djúpa vasa að fara til að reka þá. Það held ég nú að sé bara einfaldlega ekki rétt. Ég efast um að þeir auðmenn séu til á Íslandi sem hafa þá þolinmæði til að bera að reka t.d. fyrirtæki sem fara langleiðina með að tapa milljón krónum á dag, kannski 300–400 millj. kr. á ári — það eru þeir að gera eins og staðan er núna — enda held ég að styrkveitingar af þessu tagi ættu ekki að ráðast af því hvernig eignarhaldi háttar til á fjölmiðlum heldur þeim almennu sjónarmiðum að réttlætanlegt sé að grípa tímabundið til aðgerða í ljósi þess að tvenns konar aðstæður á þessum markaði, bæði sem snýr að stærð og fyrirferð ríkisins og síðan skattlausum útlendum fyrirtækjum, skekkja samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla í þeim mæli að réttlætanlegt er að grípa tímabundið til aðgerða meðan verið er að greiða úr tvenns konar aðstæðum á þessum markaði.