151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hv. þingmaður ætlaði ekki að segja að sumir fjölmiðlar skiptu máli og aðrir skiptu ekki máli. Það var ekki ætlun hans. En mér finnst ég samt greina í máli hv. þingmanns — hann talar um frumframleiðslu á fréttum annars vegar, ég veit að þetta er ríkisstjórn frumframleiðslugreinanna en það má nú fara með allt út í öfgar, og hins vegar sé úrvinnsla og fréttaskýring og þar fram eftir götunum. Ég er ekki alveg sammála þessu mati. Ég tel að netmiðlarnir, sem hv. þingmaður kallar svo, gegni mjög mikilvægu hlutverki í lýðræðislegri umræðu og skipti mjög miklu máli við upplýsingagjöf til almennings. Ég tel að fleiri fjölmiðlar skipti þarna líka máli, héraðsmiðlar og staðbundnir miðlar og þar fram eftir götunum, sem sé mikilvægt að styrkja líka. Ef við miðum við núverandi frumvarp í núverandi mynd erum við kannski að tala um að 100 milljónir verði til skiptanna fyrir minni fjölmiðla, að stóru miðlarnir skipti á milli sín 300 milljónum og svo verði 100 milljónir til skiptanna fyrir litlu fjölmiðlana. Ég tel að ef við myndum hafa þakið í 50 milljónum — þetta er ekki mikil upphæð sem við höfum til skiptanna til að byrja með en ég tel að það geti skipt sköpum fyrir litlu fjölmiðlana að hafa þó einhverja fjárhæð. En ég tel að fyrir stóru fjölmiðlana skipti það kannski ekki sköpum, vissulega muni það skipta máli en það skipti kannski ekki sköpum fyrir rekstrarafkomu eins og gildir um minni fjölmiðlana. Ég minni enn og aftur á að þar tel ég að löggjafinn hafi hlutverki að gegna til að stuðla að fjölbreytni.