151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:52]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta álitaefni á milli okkar hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar sé að sumu leyti tæmt og ekki ástæða til að orðlengja það frekar. Hv. þingmaður telur væntanlega að þessi millivegur eigi að liggja einhvers staðar annars staðar heldur en hann liggur í frumvarpinu. Þarna er þó verið að ganga þennan milliveg. Ég myndi giska á, án þess þó að hafa reiknað það út eða að ég sé með það einhvers staðar fyrir framan mig — þegar síðast kom til úthlutunar var eitt fjölmiðlafyrirtæki sem rak sig upp í 25% þakið og mér finnst líklegt að þau verði frekar tvö núna, hugsanlega þrjú en líklega þó tvö. Ég tel að með þessu sé verið að fara einhvers konar milliveg, annars vegar að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir — ég ætlaði nú eiginlega ekki að nota þetta orð aftur, það er svo ljótt — þessa frumframleiðslu, þessa meginstraumsfjölmiðla, ef við getum kallað það svo, sem eru með þessa víttumþekjandi fréttalegu umfjöllun og hina smærri sem eru með sínar áherslur annars staðar þar sem kostnaður og mannaflaþörf er kannski talsvert minni heldur en hjá meginstraumsfjölmiðlunum.