151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Styðja frekar stærri en minni, hvort fjölmiðlar eru meginstraums o.s.frv. Þetta er mjög áhugavert í ljósi þess sem við höfum séð á undanförnum árum, þ.e. hvernig pólitískir fjárfestar hafa tekið þátt í rekstri stærri fjölmiðla. Í rauninni hafa þeir tekið upp krítarkortið þegar þeir fjölmiðlar eru í rosalega miklum mínus og fyllt upp í gatið. Það þýðir að sá styrkur sem Alþingi ákveður að veita þessum fjölmiðlum, upp í 100 milljónir miðað við afkomu undanfarinna ára, er ekki til að styrkja neina fréttastarfsemi, það er einfaldlega verið að styrkja fjárfestana sem þurfa þá ekki að borga eins mikið, setja eins mikið á kortið hjá sér eins og þeir þyrftu ella. Ef við myndum einbeita okkur meira að minni miðlunum, í umhverfi þess að styrkja fréttamiðlun, færi það einfaldlega í það að gera fleiri fréttir. Það færi ekki í að gera fleiri fréttir og betri fréttir eða eitthvað svoleiðis hjá stærri miðlunum. Það væri einfaldlega bara verið að moka í holu sem fjárfestar þyrftu þá ekki að moka eins mikið ofan í og ella.

Þannig að ég spyr hv. þingmann: Hvernig gengur það upp miðað við málflutning hans að verið sé að styrkja fréttaflutning stærri miðla miðað við hvernig afkoma þeirra hefur verið á undanförnum árum og hvernig hefur verið brugðist við henni af fjárfestum?