Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé mjög skýrt í því frumvarpi sem liggur fyrir okkur að það er ekki að fara að styrkja þennan meginstraumsfréttaflutning sem hv. þingmaður talar um. Eins og staðan er í dag, miðað við þær upphæðir sem við erum að tala um, er einfaldlega verið að moka ofan í þessa holu sem ég talaði um áðan og gera það að verkum að fjárfestarnir þurfi ekki að koma til móts við rekstrartapið í þessum í rauninni ósjálfbæra rekstri. Það er ekki bara fréttaflutningurinn sem kostar alveg formúu, það er ýmislegt annað sem þessir miðlar gera sem kostar líka og skiptingin á því hvar tapið er er okkur alveg hulið. Við getum því ekkert talað neitt rosalega mikið um það hvar svona stuðningur lendir sérstaklega. Ef þetta er bara styrkur við fréttaflutning þá höfum við í rauninni ekki hugmynd um hvort hann nái tilætluðum árangri eða ekki og alls ekki heildarupphæðin miðað við rekstrarafkomu miðlanna á undanförnum árum. Í heildarafkomunni erum við einfaldlega ekki að styrkja meginstraumsfréttaflutning því að við erum einfaldlega aðeins að setja ofan í þá holu sem nú þegar er til. Ef markmiðið væri að styrkja fréttaflutning í landinu, ekki endilega meginstraumsfréttaflutning heldur bara almennt séð, myndum við einmitt frekar styrkja minni aðilana. Þá væri kannski ágætt að hafa ríkisstjórn sem væri til í að koma með eitthvað sem hún hefur ekki getað gert í fjögur ár, tillögu um það hvernig á að breyta rekstrarumhverfinu þannig að meginstraumsfréttaflutningur sé rekstrarbær. Það hefur ekki gerst.