151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:00]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski að æra óstöðugan að reyna að finna út úr því nákvæmlega hvar þessi taprekstur hjá einkareknu fjölmiðlunum á uppruna sinn. Við höfum farið yfir allar meginlínur um fyrirferð annarra en þessara einkareknu fyrirtækja sem við erum að tala um hér á þessum markaði sem nemur a.m.k. 40% af íslenskum auglýsingamarkaði og fer vaxandi. Þar er við ofboðslega ósanngjarna samkeppni að etja af tvennum toga, útlenska skattlausa og skyldulausa fjölmiðla sem eru komnir með yfir 20% af markaðnum og síðan fyrirferð ríkisins sjálfs á þessum markaði. Þetta tvennt er nú til endurskoðunar og vonandi losar það um býsna mikla peninga. Eins og ég sagði áðan er hlutur þessara tveggja aðila á íslenskum auglýsingamarkaði kannski einhvers staðar nálægt 4 milljörðum, sem nemur tífaldri þeirri upphæð sem við erum að ákveða að verja tímabundið til þessarar aðstoðar meðan rekstrarumhverfið að öðru leyti er til endurskoðunar.