151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það má kannski lýsa þessu þingmáli í grófum dráttum þannig, a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð, að hér sé verið að leitast við að leiðrétta ein mistök með öðrum jafn slæmum eða af sama toga. Hér er verið að reyna að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla í harðri samkeppni við ríkisrekna fjölmiðilinn RÚV en farin er sú leið að gera alla einkarekna fjölmiðla háða ríkisframlagi og þar með í sömu stöðu og RÚV.

Undanfarin ár hefur verið nokkur vandræðagangur af hálfu stjórnvalda þegar kemur að einkareknum fjölmiðlum hér á landi. Menn hafa augljóslega, og það er auðvitað jákvætt, viðurkennt að fjölmiðlun á Íslandi á undir högg að sækja. Skilyrði fyrir fjölmiðlun eru erfið hér. Fyrir því eru ýmsar ástæður fyrir utan fámenni okkar ágæta lands. Einkum og sér í lagi er það auðvitað vegna samkeppni frá ríkisrekna fjölmiðlinum. Árið 2016 var sett á laggirnar nefnd til að greina þessa stöðu þrátt fyrir að hún hafi legið fyrir um árabil og áratugi. Nefndin sú tók sér tvö ár til að skila af sér skýrslu, niðurstöðum þeirrar greiningar. Það tók tvö ár fyrir nefnd að skila skoðun sinni á starfsumhverfi einkamiðla. Það sem blasti kannski við líka við lestur þeirrar skýrslu er að menn horfðu mismunandi augum á samkeppnisstöðu fjölmiðlanna.

Það hafa verið kynnt til sögunnar frumvörp fyrir þetta frumvarp. Í þessu frumvarpi er ekki rakið að annað frumvarp hafi verið lagt fram en á þessu kjörtímabili hefur a.m.k. verið kynnt hér frumvarp hæstv. menntamálaráðherra, svipaðs efnis. En það hefur ekki verið lagt fram eða ekki fengið framgang vegna ágreinings um áherslur í þessum málum. Þannig að málið sem hér um ræðir er einhvers konar útfærsla á því.

Það er rétt að menn hafi líka í huga að fyrr í vetur var samþykktur sérstakur svokallaður Covid-styrkur til einkarekinna fjölmiðla, tímabundinn fyrir síðasta ár, til að mæta fjárhagsþörf þeirra, væntanlega með sama markmið og þetta frumvarp en það var látið heita Covid-styrkur þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi nú kannski sjaldan haft betri tækifæri til tekna en einmitt í þessum Covid-faraldri þegar notkun fjölmiðla var jafn mikil og hún getur frekast orðið. Hún hefur kannski sjaldan verið meiri en akkúrat síðastliðið ár.

Þetta frumvarp er merkilegt í ljósi þess sem ég hef nefnt áður um samkeppnisstöðu einkamiðlanna gagnvart RÚV. Frumvarpið sjálft nefnir ekki Ríkisútvarpið – sjónvarp einu einasta orði. Það er ekki minnst á RÚV eða samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart RÚV. Látum það nú vera, af því að við erum komin í þinglega meðferð og málið er í 2. umr. hér á þinginu, komið frá nefnd með tilheyrandi nefndarálitum, að í nefndaráliti meiri hlutans er ekki heldur minnst einu orði á RÚV. Í frumvarpinu segir að markmiðið sé að koma til móts við einkarekna fjölmiðla til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum.

Virðulegur forseti. Þetta væri auðvitað hlægilegt ef það væri ekki fullkomlega sorglegt að frumvarp af þessum toga skuli ekki nefna það einu orði sem blasir við öllum og það er hin óréttmæta samkeppnisstaða einkafjölmiðla gagnvart ríkisreknum fjölmiðli. Samkeppnin liggur þar. Hin ójafna staða er gagnvart hinum ríkisrekna fjölmiðli en ekki gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum þótt ég taki alveg undir það sem fram hefur komið í nefndaráliti og í umræðum um þetta mál að auðvitað er sérstakt verkefni fyrir ríkissjóð, til að jafna stöðu skattgreiðenda, að leitað verði leiða til að skattleggja auglýsingar erlendra miðla hér á landi með sama hætti og það er gert gagnvart íslenskum miðlum. Annað er auðvitað ekki sanngjarnt.

Ég ætla ekki að fara mikið út í tæknilegar vangaveltur eins og mjög margir hafa gert hér í umræðunni. Það væri að æra óstöðugan að ætla að fara að hafa skoðun á því hvort greiða eigi rekstrarkostnað vegna umbrotsfólks en ekki ljósmyndara eða fréttamanna eða tæknimanna. Þau tæknilegu álitaefni sem hafa verið mönnum hugleikin hér í umræðunni eru auðvitað vegna þess að málið er gallað. Málið er gallað í eðli sínu. Þegar menn ætla að veita ríkisstyrki, háða þessum skilyrðum, endar sú endalausa vitleysa ekki með því að telja upp öll þau skilyrði sem mönnum hugkvæmist í þessu. Umbrotsfólki er bætt við í nefndaráliti frá meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Þeim fannst ástæða til að bæta umbrotsfólki við í upptalningu um kostnaðarliði sem falla undir styrkveitingu. Manni dettur bara strax í hug: Hvað með útsendingarstjóra eða tæknimenn eða sviðsmyndafólk sem stillir upp fyrir myndavélar í sjónvarpssendingum? Svo er hægt að láta sér detta í hug alls kyns aðra kostnaðarliði sem jafnvel eru ekki einu sinni enn þá komnir fram, í miðlum sem hafa ekki enn komið fram. Þannig að ég ætla ekki að fara yfir þetta.

Hins vegar hegg ég eftir því að helsti ágreiningurinn í þessu máli hér á Alþingi virðist einmitt vera um útreikning og hámark rekstrarstuðningsins sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skuli vera að hámarki 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði. Þá þarf að fara að rökræða hvaða stuðningshæfi rekstrarkostnaðar það er og þar fram eftir götum. Hann getur þó aldrei orðið hærri en sem nemur 25% af fjárveitingum til verkefnisins. Það væri að æra óstöðugan að fara út í þetta.

Mér hefur hins vegar virst línurnar skiptast einhvern veginn þannig að þeir sem hallast til hægri í stjórnmálum vilji tryggja að stóru fjölmiðlarnir, borgaralega sinnuðu fjölmiðlana mætti kalla það, Morgunblaðið og Fréttablaðið, beri ekki skarðan hlut frá borði, en að þeir sem hallast til vinstri vilji tryggja að hinir fjölmiðlarnir sem eru af öðrum toga, vefmiðlar af öðrum toga sem sinna ekki eins mikilli fréttaöflun og stóru miðlarnir, beri ekki skarðan hlut frá borði. Þetta er umræðan.

Virðulegur forseti. Ég myndi óska þess að menn kæmust aðeins upp úr skotgröfunum og ræddu það sem máli skiptir sem er: Hafa menn geð í sér til þess að setja einkarekna fjölmiðla á ríkisjötuna og fjármagna þá um ókomna tíð með þessum hætti? Svarið liggur reyndar fyrir, a.m.k. af hálfu minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar og frumvarpshöfunda sem gefa engan fyrirvara um gildistíma á málinu. Þeir leggja raunverulega til að hið svokallaða fjórða vald — og það er ekki hugdetta sem ég hef búið til um fjölmiðla heldur hafa fjölmiðlar sjálfir viljað taka sér það orð í munn sem lýsandi fyrir þá sjálfa — verði ríkisrekið og verði háð því ár hvert að fara í bónför hingað til Alþingis, til fjárveitingavaldsins, um rekstrarkostnað og styrki.

Ég ætlaði ekki fara í þessa tæknilegu útfærslu. Ég vil bara benda á það, líka fyrir þá sem vilja hjakka í tæknilegri útfærslu og velta því fyrir sér hverjir eigi að fá þessa styrki og hverjir ekki, að menn horfi á fjölmiðlaumhverfið eins og það er í dag. Þá væri kannski ekki úr vegi að hinir sömu velti því svolítið fyrir sér hvaða áhrif svona þingmál og svona lagasetning og svona ríkisstyrkur til þeirra fjölmiðla sem nú eru við lýði kann að hafa á möguleika nýrra fjölmiðla sem spretta fram. Hér er t.d. gert að skilyrði að menn hafi þurft að starfa í 12 mánuði. Það er ekki einu sinni nóg að menn hafi starfað í 12 mánuði heldur þurfa menn að hafa starfað í 12 mánuði undir einhverju sérstöku eftirliti og tilkynningum og skráningum hjá ríkisrekinni fjölmiðlanefnd sem heldur skrá um fjölmiðla og veitir miðlum náðarsamlegast leyfi til að telja sig til fjölmiðla. Hvaða áhrif hefur ríkisstyrkur á mögulega innkomu nýrra aðila á markaði? Ég get svarað því, virðulegur forseti. Hann hefur sömu áhrif og samkeppnishamlanir og samkeppnistakmarkanir á öllum öðrum sviðum mannlífsins; við ríkisrekstur matvöruverslana, við ríkisrekstur áfengisverslunar, við ríkisrekstur á flugfélagi, við ríkisrekstur á útgerðarfélögum, við ríkisrekstur á skipafélögum. Hann takmarkar innkomu einkaaðila og minnkar samkeppni á markaði. Það eru áhrifin sem ríkisreksturinn hefur og ríkisstyrkirnir líka.

Það þarf að laga það óréttlæti sem einkafjölmiðlarnir standa frammi fyrir í dag. Ég er fullkomlega sammála þeim sem hafa bent á að það þurfi að laga. Þetta er óréttlæti gagnvart almenningi sem er núna skyldugur til að veita mörgþúsund milljónir til reksturs ríkisfjölmiðils á mörgum rásum, í hljóðvarpi, sjónvarpi, á samfélagsmiðlum og internetinu, mörgþúsund milljónir á ári hverju. Þessar mörgþúsund milljónir notar ríkisfjölmiðillinn síðan til að draga að sér auglýsingatekjur sem einkamiðlar sem keppa við ríkisrekna fjölmiðilinn hefðu mátt eygja a.m.k. einhverja von um að fá hlutdeild í væri ríkið ekki svona frekt til fjörsins.

Það þarf að laga þetta óréttlæti og draga úr þessum þvinguðu framlögum til RÚV. En hér er verið að bæta í óréttlætið, það er bara verið að bæta í það. Ég geld varhuga við því og ég kalla til einkarekinna fjölmiðla, er með ákall til þeirra um að velta því fyrir sér hvort þetta þjóni raunverulega þeirra hagsmunum til lengri tíma. Þjónar þetta raunverulegum hagsmunum fjölmiðla? Hið svokallaða fjórða vald á ekki að vera háð ríkinu, á ekki að þurfa að sækja hingað inn í þingsal í desember hvert einasta ár rekstrarfé. Það er umhugsunarefni fyrir alla þessa fjölmiðla, hina einkareknu fjölmiðla, og það er umhugsunarefni fyrir neytendur frétta og fjölmiðla, almenning í landinu og skattgreiðendur, það er umhugsunarefni hvort þessir fjölmiðlar muni veita stjórnvöldum raunverulegt aðhald á sama tíma og þeir ætla að vera á fóðrum hjá ríkinu.