151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:19]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ágæta spurningu um fyrirsjáanleika eða endalok þessa máls. Nei, ég tel ekki miklar líkur á að styrkir af þessu tagi, eins og það liggur fyrir og eins og nefndarálitið gefur tilefni til að ætla, verði einhvern tímann felldir niður. Í yfirferð minni fór ég ekki yfir þessa tæknilegu þætti en ég vek athygli á því að frumvarpið sjálft kveður á um úthlutunarnefnd. Mér fannst það nú reyndar hlægilegt að í greinargerð með þeirri grein er bara einfaldlega tekið fram að hún þarfnist ekki skýringar en mér hefði einmitt þótt mjög ágætt að starfsemi úthlutunarnefndar sem hér er rakin væri aðeins útskýrð. Þetta er úthlutunarnefnd skipuð þremur mönnum tilnefndum af Ríkisendurskoðun. Ég veit ekki hvað ríkisendurskoðandi segir um að vera falið það hlutverk að skipa í úthlutunarnefnd fyrir útdeilingu úr ríkiskassanum. Nema hvað, hér er úthlutunarnefnd skipuð. Svo er hér löng og tyrfin grein sem ég heyri að hv. þingmenn hafa verið að þrátta um, þ.e. úthlutunarleiðin sjálf. Ég hefði talið að heppilegt hefði verið hjá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, í ljósi þess að hún er að leggja til að þetta sé tímabundið, að einmitt hefði verið vikið að þessu og reynt aðeins að grisja í þeirri kerfisvæðingu sem þetta frumvarp er í sjálfu sér, kerfisvæðingu vegna þess að frumvarpið sjálft er að búa til nýtt kerfi, nýja nefnd, úthlutunarnefnd, sem ég hélt að jafnvel Framsóknarflokkurinn væri vaxinn upp úr árið 2021. Og svo að ég svari þessu aftur stuttlega: Nei, ég held að það séu ekki miklar líkur á því þegar svona kerfi er komið á að það verði afnumið í bráð.