Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar þingmenn fara að greiða atkvæði um málið að allar líkur eru á því að þetta fyrirkomulag sé komið til að vera, að við séum að leiða hér í lög eitthvert fyrirkomulag þar sem einkareknir fjölmiðlar, í það minnsta þeir sem eru til í dag — það er óvíst að þeim fjölgi nokkurn tímann í ljósi þess hvernig fyrirkomulagið er. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á í ræðu sinni þurfa fjölmiðlar að hafa verið til í a.m.k. 12 mánuði að mér skilst til þess að geta farið undir þetta styrkjakerfi allt saman. Engar líkur eru á því að þetta verði afnumið þegar tíminn sem er horft til rennur út. Þvert á móti eru miklar líkur á að þetta verði fest í sessi. Og það sem verra er, herra forseti, að miðað við þá umræðu sem hefur orðið hér í þingsalnum, miðað við þær breytingartillögur sem við höfum séð og þau nefndarálit sem höfum séð eru allar líkur á að ef hér kæmi vinstri stjórn myndi hún með því að breyta reglunum veita aukið fé í hina vinstri sinnuðu fjölmiðla og ef það væri hér hrein hægri stjórn færi hún öfuga leið. Það er verið að búa til einhvern bastarð sem gerir það að verkum að fjölmiðlar munu á komandi árum verða algjörlega háðir ríkisvaldinu. Ég ætla að leyfa mér að segja það bara: Algjörlega, allir fjölmiðlar á Íslandi, ekki bara þessir ríkisreknu.

Þá veltir maður fyrir sér: Eru einhverjar lausnir á þessu máli? Jú, það hefur verið bent á að t.d. sé hægt að leyfa fólki að velja hvort það greiði þetta svokallaða útvarpsgjald eða ánafni því til annarra fjölmiðla. Það má líka velta því fyrir sér ef menn eru svona æstir í að halda einhvers konar Ríkisútvarpi áfram. Ég tek það fram að ég er á móti því. Ég held að leggja ætti Ríkisútvarpið af í þeirri mynd sem það er í dag. Við ættum hugsanlega vera með einhvers konar menningarútvarp, Rás 1 eða eitthvað þess háttar, en að menn fari ekki þá leið að stofnanavæða, eins hv. þingmaður segir, alla fjölmiðla. Ríkisútvarpið, ef menn vilja hafa einhvers konar batterí sem heitir það, getur þá bara verið á fjárlögum og tekið þá skelli sem þarf að taka, bætt við þegar hægt er o.s.frv.

Mig langar að spyrja hv þingmann: Sér hún einhverja lausn á þessu aðra en hugsanlega bara að loka þessu Ríkisútvarpi?