Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:23]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að játa það að þurfa að brjóta hér þingsköp og fagna og vera sammála hv. þingmanni í andsvörum, svo sem hann gerði sjálfur í sínu andsvari. Ég tek heils hugar undir að þegar þetta festist í sessi þá verður það enn eitt pólitíska bitbeinið í framtíðinni. Lausnin á þessu er auðvitað sú að menn setji undir sig höfuðið og standi nú í lappirnar og axli þá ábyrgð sem þeim er falin í stjórnmálum, að taka ákvarðanir og leggja fram stefnu til framtíðar, að menn geri það einu sinni þegar kemur að fjölmiðlum og ríkisrekstrinum hjá Ríkisútvarpinu – sjónvarpi, að menn segi nákvæmlega hvað þeir ætli að gera og geri það sem þeir hafa sagst vilja gera.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að í nýjum þjónustusamningi sem hæstv. menntamálaráðherra skrifaði undir við RÚV — skrifaði undir þjónustusamning við ríkisstofnun, hæstv. menntamálaráðherra er undir það sett að skrifa undir þjónustusamning og semja við RÚV um framlag sem er auðvitað neikvæð afleiðing af þessari ohf.-væðingu sem hefur tröllriðið hér öllu undanfarin ár. En látum það nú vera, ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þann þjónustusamning og að þar hafi ekki verið tekið aðeins til í þessum rekstri, reynt að afmarka betur hvert hlutverk RÚV er. Ef menn ætla að halda áfram að hafa RÚV — og ég skal alveg viðurkenna að þótt ég sé sammála hv. þingmanni og telji að leggja eigi niður ríkisrekstur á fjölmiðlum átta ég mig á því að það er ekki pólitískur veruleiki og raunveruleiki til að gera það í einu vetfangi, a.m.k. á næstu misserum, mögulega næstu árum, ég veit það ekki. En í öllu falli er hægt að draga úr þessari starfsemi, gera stefnuna skýrari, kveða skýrt á um mjög afmarkað hlutverk RÚV og þannig að það klagi ekki upp á einkarekna fjölmiðla. Það er bara nauðsynlegt að gera það. Þetta frumvarp gerir það ekki og þjónar ekki hagsmunum nokkurra einkarekinna fjölmiðla.