Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir prýðisræðu. Þingmaðurinn kom víða við og talaði um að það vantaði alla framtíðarsýn í þetta frumvarp og að ekki væri tekið á málinu eins og þyrfti. Ég get alveg tekið undir það. Það kom líka fram hjá þingmanninum, ásamt fleiri þingmönnum í fyrri ræðum, að ekkert er minnst á RÚV í frumvarpinu og sérstöðu þess hérlendis í fjölmiðlum. Þá langar mig til að spyrja þingmanninn: Hvað leið sér þingmaðurinn að myndi verða árangursríkust til að ná einhvers konar sátt í samfélaginu og jöfnun í fjölmiðlum? Erum við t.d. að tala um að taka RÚV út af auglýsingamarkaði? Hvernig getum við jafnað þessa stöðu? Fyrir nokkrum árum síðan — það er búið að tala um þetta í mörg ár — var oft talað um að öryggisþáttur RÚV væri svo ríkur vegna þess að þegar einhver vá steðjaði að væru sendingar RÚV til þess fallnar að vera öryggisþátturinn. Svo er það nú þannig að aðrir þættir í útsendingum eru orðnir miklu sterkari. RÚV næst ekki alls staðar en það er nú kannski ekki spurningin til þingmannsins heldur: Hvað telur þingmaðurinn að væri skynsamlegast að gera í stöðunni til að einhver árangur verði hinum megin við enda ganganna?