151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að það sé sagt og endurtekið frá því sem ég nefndi í ræðu minni þá er ég afdráttarlaust þeirrar skoðunar að ríkisfjölmiðillinn eigi rétt á sér, fjölmiðill sem er rekinn í almannaþágu og hefur einmitt m.a. þetta öryggishlutverk sem hv. þingmaður vísar í. En ég held að mikilvægi hans sé ekki síst fólgið og bundið í þessu ríka framlagi hans til menningarinnar hér á landi. Yfirburðastaðan stafar auðvitað af því að þarna er fjölmiðill sem er á fjárlögum, fær framlög frá hinu opinbera, samhliða því að keppa á auglýsingamarkaði. Þetta hvort tveggja saman leiðir til þess að hallinn verður með þeim hætti sem reyndin er. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að þá væri eðlilegt að líta til þess hvort RÚV eigi yfirleitt að vera á auglýsingamarkaði eða hvort takmarka eigi það með einhverjum hætti fyrst miðillinn er rekinn með þeim hætti sem hann er. Og ég held, þó að ég hafi skilning á því sjónarmiði sem kom fram hér inni í salnum áðan að það eitt og sér muni kannski ekki leiða til grundvallarbreytingar á einkareknu miðlunum, að það hljóti að vera lausn í stöðunni að líta til þess hvort takmarka eigi þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði með einhverjum hætti eða jafnvel stíga skrefið alveg til fulls.